Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 149
148
svavaR HRafn svavaRsson
Það er á fyrri hluta sjöttu aldar sem hugmyndin um hamingju í næstu
vist kemur fram í lofsöngnum til Demetru, hómerskum hymna. Þar er
einnig minnst á refsingu, en fyrst og fremst fyrir að bregðast skyldum
sínum við Persefónu, dóttur Demetru. Meginmálið er loforð um góða
handanvist handa þeim sem rækja skyldur sínar við guðdóminn og eru
þannig réttlátir. Hér er sáluhjálpin komin, persónuleg sáluhjálp þess sem
lýtur boðum átrúnaðarins.3 Þessari hugmynd virðist bætt við hugmyndina
um handanrefsingu sem endurgjald.4 Aðrir trúarhópar, sértrúarsöfnuðir
og launhelgadeildir sem tengdust Díonysosi og Orfeifi, sem og pýþagór-
ingar, hampa ekki aðeins sáluhjálp áhangendanna, heldur bæta tvennu
við. Annars vegar boða þeir umbreytingu þeirra í hetjur og jafnvel guði.
(Þeir fá þá sömu vist og Menelás hjá Hómer, en í krafti réttlætis og guðs-
ótta.) Innan þessarar trúar sem beinist að persónulegri sáluhjálp spilar
hugmyndin um handanrefsingu ekki aðeins þá rullu að hóta endurgjaldi
fyrir goðgá, heldur einnig og kannski fremur að boða tímabundna bið á
hinni endanlegu sáluhjálp, bið sem felst iðulega í hinu atriðinu sem bætt
er við, nefnilega framhaldi sem endurholdgun; þá er krafist einhvers konar
hreinsunar og betrunar, bæði í jarðlífinu og fyrir handan. Athugum fyrstu
þræði þeirrar hugmyndar að réttlæti guðs ríki fyrir handan.
2. Siðfræði handanlífsins í elstu heimildum:
refsing sem endurgjald fyrir ranglæti
Meginviðhorfið til handanlífs hjá Hómer og Hesíodos er að dauðinn sé
svo gott sem endir dauðlegra manna. Framhaldslífið, eins lítilfjörlegt og
það er, er jafn ómerkilegt fyrir alla. Þessum jöfnuði er aðeins hægt að
breyta – sé yfirleitt hægt að breyta honum – með ógnarmikilli (jafnvel
ofurmannlegri) goðgá eða þá skyldleika við sjálfan guðdóminn. Það er
refsað fyrir afbrot manna í þessu lífi, bæði hjá Hómer og bersýnilega hjá
Hesíodos. Réttlæti og frómleiki spila ekki rullu. Sama viðhorf má finna
innan annars kveðskapar arkaíska tímans.
Hin hómerska skoðun felur varla í sér hugmyndirnar um verðlaun og
refsingu í handanlífinu vegna réttlætis eða ranglætis í þessu lífi. Frægustu
lýsinguna er að finna í orðum Akkillesar (Ód. 11.487–91):
3 Sjá W. Burkert, Ancient Mystery Cults, Cambridge, Mass.: Harvard University Press,
1987, bls. 12–29.
4 Sjá C. Sourvinou-Inwood, ‘Reading’ Greek Death: To the End of the Classical Period,
Oxford: Clarendon Press, bls. 173–74, 298–300.