Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 161
160
svavaR HRafn svavaRsson
Æskýlos lætur nægja að vísa til hefðbundins hlutverks nornanna sem
hefnenda Hadesar, jafnvel fyrir handan.41
Orð Pindars eru annars konar. vísanir hans til handandóma hafa rétti-
lega verið teknar til marks um að hugmynd Grikkjanna um psykhē hafi þá
breyst mikið frá tíma Hómerskviða.42 Eftirfarandi línur úr annarri ólymp-
ísku drápunni eru frægar; hún var samin handa Þeróni eftir sigur hans í
kerrukappreiðum árið 476 (56–80):
Hafi maður auð og viti það sem koma skal, að hjálparlausum öndum
þeirra sem hér hafa dáið er umsvifalaust refsað – og fyrir syndir sem
framdar eru hér í ríki Seifs fellir dómarinn neðra dóm sinn af heift-
rækinni nauðsyn. En ávallt njóta hinir góðu sólar jöfnum nóttum og
jöfnum dögum og fá auðveldara líf, því þeir trufla ekki jörðina með
styrk handa sinna eða vatn sjávarins til að draga fram lífið, heldur ala
aldur sinn óþjáðan hjá hinum heiðruðu guðum þeir menn sem héldu
eiða sína, en hinir þola ólýsanlegar píslir. En þeir sem höfðu kjark
til að lifa þrisvar43 í hvorri vist og halda sál sinni fjarri öllu ranglæti
fara braut Seifs til stöpuls Krónoss. Þar blása sjávarvindar um eyju
hinna sælu, gullblómin skína, sum af landi frá geislandi trjám, önnur
nærir vatnið. Af þeim vefa þeir hringi fyrir hendur sínar og sveiga
fyrir höfuð sín að réttlátum ráðum Hradamanþyss, sem hinn mikli
faðir [Krónos] hefur ætíð sér við hlið, eiginmaður Hreu, er hefur
hæsta hásæti allra. Bæði Peleifur og Kadmos teljast til þeirra, sem og
Akkilles, sem móðir hans kom með, þegar hún hafði sannfært hjarta
Seifs með bænum sínum.44
41 Þetta eru (held ég) einu tilvísanirnar til þess að refsinornir hefni fyrir handan.
En vitaskuld vísar Æskýlos til þeirra í öðru samhengi; hann tengir þær Bakkos-
arvígslum (Hollvættir 500; sbr. Sjö gegn Þebu 699–700), rétt eins og Evripídes
(Orestes 337–38, 411; Fönikíumeyjar 1489–1503; Hekúba 684–87); sjá S.I. Jo-
hnston, Restless Dead: Encounters Between the Living and the Dead in Ancient Greece,
Berkeley: University of California Press, 1999, bls. 251–58. Líkast til dúkka refsi-
nornirnar einnig upp í Derveni-papýrusnum, þótt erfitt sé að greina hlutverk þeirra
í þeirri orfeifsku frásögn; sjá G. Betegh, The Derveni Papyrus: Cosmology, Theology
and Interpretation, Cambridge: Cambridge University Press, 2004, bls. 89–91.
42 Sjá Clarke, Flesh, bls. 283–319; A.A. Long, Greek Models of Mind and Self, Cam-
bridge, Mass.: Harvard University Press, 2015, bls. 70–76.
43 Í lýsingu sinni á örlögum sálna í Fædrosi minnist Platon (249a) á hrekklausa og
réttláta heimspekinga sem öðlast æðsta hnossið eftir þrjú árþúsund. Empedókles
minnist á útlegð dæmonsins sem varði 30 þúsund árstíðir (DK B115.6).
44 Í útfararkvæði (broti 129) virðist Pindar lýsa tómstundum hinna brottkvöddu
eðalmenna þegar hann vísar til skóglendis og segir að „sumir njóti útreiða og æf-