Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 7
L e i t i n a ð A u ð h u m l u
TMM 2014 · 2 7
Ég sökk dýpra en ég hafði hugsað mér, lagði frá mér skáldsögu og barnabók
vegna þess að eirðin var farin, mér fannst allt ómerkilegt sem ég gæti skrifað
og skapað í samanburði við alla þessa yfirþyrmandi eyðileggingu en fann
loksins farveg fyrir það í bók sem varð Draumalandið.
En svo var ég staddur á fyrirlestri Al Gore í Háskólabíói, þetta hefur
verið í apríl hrunárið fína 2008. Ég man það vegna þess að ég get flett
dagsetningunni upp í leitarvél. Ég held að fólkið í salnum hafi ekki hugsað
sér að læra mikið af Gore, enda margir komnir með grunnneysluþörf á
við smáríki í Afríku og skuldsetningu upp á c.a hálfa þjóðarframleiðslu
Íslands. Markmið heimsóknar hans var fyrst og fremst hluti af ímyndar-
sköpun Glitnis við orkuútrás og orkunýtingu hérlendis, sem hluti af sölu-
mennskunni á bak við mýtuna um hina „hreinu íslensku orku“. Forsetinn
heldur þarna ræðu og um huga mér renna línur úr Eddukvæðum:
Glitnir heitir salur
hann er gulli studdur
og silfri þaktur hið sama
en þar Forseti
byggir flestan dag
og svæfir allar sakar.
En í miðjum fyrirlestrinum birtir Gore mynd af Himalayjafjallgarðinum
og bendir á upptök fjögurra mikilvægustu stórfljóta Asíu. Þetta er magnað
hugsa ég með mér – fjórar ár frá sömu slóðum – þetta er eins og Auðhumla.
Ég held að Auðhumla sé ein sérkennilegasta kynjaveran í gjörvallri
norrænni goðafræði, kýr sköpuð úr hrími sem nærði Ými með sínum fjórum
mjólkurám en hann varð síðan heimurinn sjálfur. Hár hans varð að skógi,
heilinn varð að skýjum. Sköpunarsaga Biblíunnar verður nánast vísindaleg
og rökleg miðað við þessa frásögn. Marvel Comics gætu gert heila seríu um
Þór, Óðinn og Loka, það er hægt að gera óperu um valhöll og Ragnarök og
það væri hægt að gera nútímadansverk um Skírnismál – en Auðhumla? Hvað
á að gera við ofurkúna Auðhumlu? Eins og leyfar af leyfum af ljóði sem hefur
slitnað og trosnað í munnlegri geymd. Ruglast í þýðingum og túlkunum,
verið þýdd úr kvæði í laust mál og aftur í kvæði og rímið að lokum ruglast í
hljóðvarpi eða klofningi á 7. öld. Kýr sköpuð úr hrími?
En þarna í Himalaya var eins og einhver mynd tæki að skýrast – fjórar ár
sem næra gjörvalla Asíu og heilög vötn þar að auki. Skemmtileg tilviljun.
Ár var alda
þat er arar gullu
hnigu heilög vötn
af Himinfjöllum