Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Qupperneq 77
S t r í ð s m a ð u r o g f r i ð a r h ö f ð i n g i
TMM 2014 · 2 77
Afríska þjóðarráðið og fleiri samtök sem höfðu verið bönnuð yrði aflétt,
að pólitískir fangar yrðu látnir lausir, dauðarefsing afnumin og ýmsum
ákvæðum neyðarástandsins aflétt. „It was a breathtaking moment,“ segir
Mandela í endurminningunum. De Klerk lauk ræðu sinni á að segja að nú
væri stund samninganna runnin upp.7 Þetta sama ár var Nelson Mandela
látinn laus úr fangelsi.
Eftirleikinn þekkjum við og þar reyndi á Nelson Mandela, ekki síst í því
að halda sínum eigin mönnum í skefjum og fá þá til að fallast á samninga-
leiðina. Óeirðir og ofbeldi blossuðu upp hér og þar í landinu meðan á við-
ræðunum stóð, ekki síst í KwaZulu-Natal þar sem Inkhata hreyfingin var
sterk. Slíkt gat auðveldlega siglt samningunum í strand, enda kærðu ýmsir
sig ekki um samningaleiðina og vildu nota ólguna í landinu til að ganga
milli bols og höfuðs á óvininum. Fréttaskýrandinn Fergal Keane segist hafa
hlustað á Mandela á þessum tíma halda ræðu í einu þeirra úthverfa, eða
„townships“, þar sem blökkumönnum var gert að búa og þar sem margir
höfðu þegar verið drepnir í átökum milli stríðandi andspyrnufylkinga.
Hann segir að Mandela hafi sagt: við verðum að horfast í augu við sann-
leikann, við erum sjálf jafn sek og aðrir í því að drepa okkar eigið fólk. Frelsið
munum við aldrei öðlast með því að drepa saklaust fólk – eða orðrétt – við
getum ekki notað lík saklauss fólks til að klifra til frelsis.8 Keane segir að
Mandela hafi vitað að fólk vildi ekki hlusta á orð af þessu tagi en að hann hafi
líka vitað að hlustað yrði á sig. Þar kemur til sögunnar áhrifamáttur táknsins
sem Mandela var orðinn og það var í þágu friðsamlegra lausna sem hann
notaði áhrifamátt sinn. Stríðsmaðurinn Rolihlahla, sá sem rífur greinar af
trjánum, var orðinn að friðarhöfðingja, að Dalibunga, föður þjóðar sinnar,
þeim sem hefur vitið.
Ofbeldið var landlægt, einnig meðal hvítra kynþáttasinna og öfgamanna
hvers konar og óvíst var í byrjun hvort hægt yrði að tryggja samvinnu við
herinn. En saman tókst Mandela og de Klerk að sigla fram hjá þeim mörgu
skerjum sem samningaviðræðurnar gátu steytt á, halda ofbeldinu í skefjum
og semja um að ein lög skyldu gilda fyrir alla. Þeir sömdu meðal annars um
að allir fengju kosningarétt og hann jafnan, einn maður, eitt atkvæði. Það
eitt þýddi að þar sem blökkumenn voru í yfirgnæfandi meirihluta í landinu
myndu þeir ráða úrslitum allra kosninga. Reyndur diplómati sem starfaði
í Suður-Afríku á þessum árum, sagði mér að sennilega hefði de Klerk ekki
ætlað að ganga svona langt í jafnræðisátt, en þegar hér var komið málum
var einfaldlega orðið of seint að snúa við. Fleiri viðmælendur mínir staðfestu
það. Saman fengu þeir Mandela og de Klerk Friðarverðlaun Nóbels árið 1993.
Fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu fóru fram í apríl 1994 og tóku fjóra
daga. Mandela segir í endurminningum sínum að þegar hann fór á kjörstað
hafi sér verið efst í huga allt það fólk sem fórnað hafði lífi sínu fyrir þann
málstað sem nú var í höfn. Hann segir einnig að hann muni aldrei gleyma
hinum löngu biðröðum fyrir utan kjörstaði, fólkinu sem beið þolinmótt