Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Side 80
80 TMM 2014 · 2
Arthur Björgvin Bollason
„Þar eru tröll og syngja söng“
Hugleiðing um íslenska hálendið og ferðamenn
Í frægri grein sem dr. Sigurður Þórarinsson skrifaði fyrir hartnær hálfri öld
um „Fossa á Íslandi“ lýsir hann viðhorfi sínu til þessa mikla náttúruafls með
eftirfarandi orðum:
Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum
landsins búi nokkur af framtíð þjóðar okkar, er byggist á þeim verðmætum sem
mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju
þjóðarinnar, að hún gleymi ekki að í fossum landsins búi einnig verðmæti sem ekki
verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.
Þegar við lesum þessi orð dr. Sigurðar Þórarinssonar vaknar sú spurning,
hver þau verðmæti séu sem hann er að tala um. Þessi verðmæti, segir hann,
verða ekki metin til fjár, heldur mælast þau í unaðsstundum. Sú hugsun sem
Sigurður opinberar í þeim skrifuðum orðum felst í því að til séu verðmæti
sem séu annars eðlis en þau sem felast í verðbréfum, verðmæti sem eru jafn-
vel allsendis óskyld krónum og aurum, vöxtum eða vaxtavöxtum; verðmæti
sem skila okkur annars konar hagnaði en hlutabréf á markaði. Þarna er
höfundur bersýnilega að skírskota til annarra þarfa en þeirra sem tengjast
efnislegri tilvist okkar, – þarfa sem varða sálina, tilfinningarnar, „andann“
eða hvað við viljum kalla þann þátt mannskepnunnar sem hér á í hlut.
Sigurður er að tala um það hjartansmál sem Þorsteinn Erlingsson skáld gerði
að yrkisefni í kvæðinu sínu um fossana á æskuslóðum í Fljótshlíðinni:
Þó þeir ættu aungva sál
eða skiftu hljómi
sungu þeir heilagt hjartansmál
hver með sínum rómi.
Og síðar í kvæði sínu „Fossanið“ bætir skáldið við:
Hljóðin snjöllu úr hamraþröng
heiðra ég öllu meira
þar eru tröll og syngja söng
svo að fjöllin heyra.