Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Page 140
D ó m a r u m b æ k u r
140 TMM 2014 · 2
erfiður og fyrir kemur að hún dansar á
brún hyldýpisins í þunglyndi og
drykkju. Þá sendir hún Dísu af stað út í
lífið en skríður sjálf undir sæng. Fyrir
umheiminum birtist þetta svo sem yfir-
gengilegt mislyndi og dyntir. Þótt margt
sé óleyst við sögulok og vopnaglamur
heyrist enn er óhætt að fullyrða að djúp-
stæð þrá eftir friði milli Dísu og Gríms
eða í það minnsta vopnahléi sé undir-
liggjandi alla bókina og jafnvel í seiling-
arfjarlægð á síðustu blaðsíðunum.
En það eru hin sífelldu átök milli
Gríms og Dísu sem gera Dísusögu á
köflum erfiða aflestrar. Þau eru magn-
þrungin og skera oft inn að beini en á
stöku stað ber dálítið á endurtekningum
og frá fagurfræðilegu sjónarhorni hefði
verið þakklátt að stytta þau. Auðvitað
má segja að fagurfræði sé ekki allt og
þegar upp er staðið þjónar endurtekn-
ingin vissulega tilgangi, enda kunnug-
legt stef hjá vigdísi – hún er erfið en
hún hefur áhrif þar sem hún vísar í ævi-
langa baráttu raddanna – kannski er
bókin hrárri og sterkari fyrir vikið. En
mögulega hefði verið hægt að ná hvoru
tveggja fram, fegurð og áhrifamætti.
Dísa segir reyndar sjálf og það oftar en
einu sinni að hún ætli ekki að ritskoða
neitt né endurskrifa heldur láta textann
halda sér eins og hann kemur frá henni.
Auðvitað er varhugavert að taka öll orð
hennar bókstaflega en það má staldra
við ástæðuna fyrir þessari reglu – hún
vill ekki ritskoða og pússa textann af því
hún ætlar að reyna að losna undan
kækjum skáldkonunnar Gríms. Hér
gerir höfundur sem sagt tilraun til að
komast undan sínum eigin hefðum og
venjum sem og hinni hefðbundnu
skáldsögu. Dísa gerir meira að segja að
umtalsefni hina kvenlegu bókmennta-
hefð sem einkennist af smáatriðalýsing-
um og löngum forleik að hvörfum sög-
unnar (bls. 193). Kannski er þetta með-
vituð uppreisn gegn hefðinni, fagur-
fræðinni og forminu? Gríms gagnrýnir
nefnilega ekki bara efni og efnistök Dísu
heldur ekki síður form hennar og upp-
setningu sem flæðir óheft.
Ytri rammi bókarinnar er raunar
gamalgróinn – sagan er í formi sendi-
bréfs og bréfið stílað til elskhugans kisa
sem Gríms lofaði nafnleynd fyrir mörg-
um áratugum. Skáldsaga í bréfum er
kunnuglegt form sem þykir gjarnan
gæða textann ákveðnum sannfæringar-
krafti og raunsæi. En um leið skortir hið
alsjáandi auga sögumannsins, sjónar-
hornið er takmarkað og lesandinn ofur-
seldur bréfritara hvað varðar allt sann-
leiksgildi. Það er þarna sem höfundur-
inn bregður á leik – sérstaklega þar sem
Dísa og Gríms grípa iðulega fram í fyrir
hvor annarri og draga í efa frásögn
hinnar. Skáldaleyfið sem Dísa tekur sér
er undirstrikað – til dæmis þegar hún í
öðrum kafla situr skrifandi við
gluggann á kaffihúsinu á Norðurfirði og
sér kisa koma með flugi að sunnan. Það
er sumar í þeirri mynd sem hún dregur
upp og einn heimamanna nýkominn af
veiðum. En sem þeir kisi taka tal saman
og heimamaður bendir honum á nátt-
úrufegurðina allt um kring fer að snjóa
og fjallahringurinn er snæviþakinn og
ægifagur. Hér grípur Gríms inn í frá-
sögnina enda ofbýður henni hvernig
myndir Dísu stangast á: „Það er lágmark
að þú ruglir ekki saman vetri og vori,
talir ekki um vetrarmyndir og sumar-
veiðar í sömu andránni. Þú verður að gá
að raunsönnu samhengi hlutanna ef þú
ætlar að búa þér til einhverja eðlilega
sérstöðu.“ (bls. 51) Hér má staldra við
kröfuna um „eðlilega sérstöðu“ – það er
sum sé nauðsynlegt að marka sér sér-
stöðu en hún verður að falla innan
ákveðins ramma, hún verður að vera
eðlileg. En Dísa lætur sér fátt um finnast
– þetta er hennar frásögn sem lýtur