Andvari - 01.01.1988, Side 41
ANDVARI
PÉTUR BENEDIKTSSON
39
lærðu menn meira og betur en af því að vera leiddir hvert fótmál. Það
hefur verið okkur, lögfræðingum bankans, lærdómsríkt að starfa undir
stjórn Péturs, því að hann var afburðasnjall lögfræðingur sjálfur, þótt
hann legði aldrei stund á lögfræðistörf sem slík/‘
Svanbjörn Frímannsson hafði starfað í Landsbanka íslands í 20 ár er
Pétur kom þar til starfa og varð sjálfur einn af bankastjórunum 1957.
Við lát Péturs lýsti Svanbjörn þeim umskiptum sem urðu í lífi hans við
heimkomuna og brá upp þessari mynd af meðbankastjóra sínum:
,,Pétur varð fimmtugur í desember árið sem hann kom heim. Þá var
honum og konu hans, Mörtu Ólafsdóttur Thors, haldið samsæti af
fjölmennum hópi vina og kunningja. Það var ekki um að villast. Þar var
kominn vænn hópur þeirra, sem áttu sendiherrahjónunum þökk að
gjalda fyrir margvíslega aðstoð og gestrisni handan hafsins. Þeim, sem
dvalið hefur fjarri fósturjörðinni í aldarfjórðung og þar með öll sín
starfsár að lokinni skólavist, er gott að koma heim og finna, að hann
kemur ekki sem ókunnur maður. Þó er þeim hinum sama mikill vandi á
höndum. Hann kemur að nýju ábyrgðarmiklu starfi. Margt hefur
breyst hér á 25 árum. Ný viðfangsefni blasa við, að flestu leyti ólík
þeim, er fylgdu fyrra starfi. Til þess að vel takist, þarf meira en almenna
starfshæfni. Það þarf yfirburða dómgreind, gætni og festu, samfara
sterkum vilja til að læra og tileinka sér ný viðhorf.
Pétur Benediktsson var þessum kostum búinn. Það var með ólíkind-
um, hve fljótur hann var að kynnast sínu nýja starfi og hve auðvelt
honum reyndist að mynda sér raunsæjar skoðanir á þeim viðfangs-
efnum, sem daglega lágu fyrir til úrlausnar. Starfsfólk bankans lærði
fljótt að meta verðleika hins nýja húsbónda og sama varð sagt um
fjölmarga viðskiptamenn bankans.
Annað kom hér til, sem mörgum íslendingum var kunnugt frá fyrra
starfi Péturs, en fljótt varð bæjar- og landsfleygt eftir komu hans
hingað. Það var kímnigáfa hans og hæfileiki til að sjá skoplegar hliðar
málefnanna. Ég minnist fjölmargra funda, þar sem erfið vandamál
voru á dagskrá, að Pétur brá á gamanmál, sem létti skap fundarmanna
°g málin reyndust auðveldari úrlausnar eftir en áður.
Hvar sem Pétur Benediktsson kom eða fór, fylgdi honum hressandi
gustur. Það fór ekki hjá því að sumum fyndist þessi gustur kaldur, er
hann blés um þá og þeirra málefni. Ef til vill hefur óvægni, nokkuð um
°f, ráðið þessum gustkulda og skiljanlegt að slíkt komi fyrir hjá
kappsfullum persónuleika. Hitt vissu fjölmargir vinir og kunningjar,