Andvari - 01.01.1988, Qupperneq 68
66
GYLFI GRÖNDAL
ANDVARI
Á þessum dýrðardögum varð ég æ hugfangnari af því sem bar fyrir augu mér
undir beru lofti. Jörð var sem óðast að lifna, tún orðin algræn og daufgrænum lit
tekið að slá á engi og haga, eyjarnar í Álftavatni og bjarkir og kjörr í mishæð-
óttu hrauninu handan vatnsins.
Brátt sýndist mér allur gróður þróttmeiri og fjölbreytilegri á Torfastöðum en
Litla-Hálsi. Og mér er nær að halda, að það hafi ekki verið nein ímyndun, enda
þótt ég ætti stundum erfitt með að greina draum frá veruleika.
Um fugla á Torfastöðum gegndi svipuðu máli og um gróður, að þeir voru
mun fleiri að tölu og tegundum en á Litla-Hálsi. Vafalaust kom það til af hólm-
um og vikum Álftavatnsins ásamt víðáttumiklu starengi með lænum og
keldum. Álftir og gæsir kunnu vel að meta stör, en óðinshanar vatnsvikin og
tangana, svo að dæmi séu nefnd.
Og lækirnir! Drottinn minn góður! Hvílíkir lækir á Torfastöðum!
Ég kynntist þeim hverjum af öðrum, þegar égfór að huga að kindum, hlaupa
uppi lömb, sem gróið hafa fyrir, skeina þau með mosa og nudda þau síðan með
skrælþurrum moldarsalla úr barði, svo að ekki greri fyrir þau aftur. Þessi hjálp
við lömb í nauðum var oftast veitt nálægt rótum Ingólfsfjalls. Sumir lækjanna
áttu þar upptök sín í silfurtærum hljóðlátum lindum, þaðan sem þeir hófu ferð
sína niður á engjar og út í Álftavatn. Á leiðinni niður á flatlendið tóku þeir
lagið, þáðu vatn úr dýjum og veitum, buðu smásprænur velkomnar í ferðalagið
með sér - og efldust þannig að afli og sönglist. Stundum hurfu þeir snöggvast
undir yfirborð jarðar, rétt eins og lækirnir á Litla-Hálsi; en þegar kom niður á
flatt starengið, stilltust þeir og liðu fram síðasta spölinn að vikum Álfta-
vatns — hæglátir og hátíðlegir eins og kirkjugestir.
Annað árið okkar á Torfastöðum tók ég ósjaldan með mér færi, þegar ég
gekk til kinda og renndi í hylji og pytti að loknum skylduverkum.
Stöku sinnum bar það við, að ég þóttist heldur en ekki maður með mönnum,
þegar heim kom; hafði orðið svo fengsæll, að bröndurnar nægðu okkur í soðið.
Lað kom sér vel, enda þótt við liðum aldrei beinan skort á Torfastöðum í basli
og kreppu.
Og ekki dró veiðiskapur úr töfrum og aðdráttarafli lækjanna, Álftavatns og
Sogs. Steingrímur Gíslason á Torfastöðum, leikfélagi minn og vinur, fór fljótt
að taka þátt í því með mér að renna fyrir silungsbröndur í lækjum og lænum.
Þegar ég var heima hjá foreldrum mínum á sumrin eftir að ég var uppkom-
inn, lögðum við Steingrímur ekki leið okkar að blessuðum lækjunum, heldur
niður að Sogi; óðum út í bláan strauminn og vorum nú ekki með ótraust færi
undin upp á spýtu, heldur veiðistengur.
Trúlegt þykir mér, að torveldar ráðgátur um lífið og tilveruna hafi verið víðs
fjarri okkur félögunum, þegar við vorum um og innan við tvítugt að sveifla
stöngum okkar og vonast eftir að verða varir; draga vænan lax eða silung úr
bláum straumi Sogsins.