Andvari - 01.01.1996, Page 155
ANDVARI
OFBELDI TÍMANS
153
greint, boðberi sannleika sem söguhöfundur tekur í raun enga afstöðu til.
Það að þessi „sannleikur“ skuli vera lagður í munn manni sem sálfræðin
myndi dæma andlega vanheilan - í sögunni er talað um að siðferðiskennd
Jónasar hafi beðið hnekki við slysið - er sennilega nokkuð dæmigert fyrir
þá viðleitni nútímans til að loka dauðann af, gera hann að einhvers konar
jaðartilfelli, ósýnilegan innan veggja stofnana. Það er engu að síður rétt að
taka það fram að höfundur þessarar sögu verður ekki sakaður um hugleysi
í vali sínu á viðfangsefnum. Það eitt að gera dauðann að merkingarupp-
sprettu ber vott um áræði í samfélagi þar sem hann er nánast bannorð í
stað þess að litið sé á það lykilhlutverk sem hann gegnir í mannlegri tilvist.
Eins og Vilhjálmur Árnason heimspekingur bendir á er dauðinn þrátt fyrir
allt grundvallaratriði í meðvitund manna um sjálfa sig sem einstaklinga
sem verða að taka ábyrgð á eigin lífi.10 Tilhneiging okkar til að breiða yfir
ásjónu dauðans er þannig ekki sjálfgefin. Undirbúningur fyrir dauðann var
til að mynda lykilatriði í sjálfstækni á tímum frumkristninnar og jafnvel
þótt gripið sé til nýlegri hugmynda í sögu sjálfsverunnar; til dæmis talar
þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche um að menn eigi að deyja á
réttum tíma í riti sínu Also sprach Zarathustra. í túlkun Vilhjálms fela þau
orð þó ekki í sér að maðurinn eigi að taka eigið líf frjálsri hendi: „Ráðið til
þess að deyja á réttum tíma felst ekki í því að ákveða dauðastund sína,
[. . .] heldur í því að temja sér ákveðna afstöðu til lífsins og dauðans“.n Sá
sem er reiðubúinn að deyja hvenær sem er deyr á réttum tíma.
Hugmyndir söguhetjunnar í Ári bréfberans eru nokkurs konar tilbrigði
við þessa hugsun. Bréfberanum Jónasi tekst með eigin mætti að gæða líf
sitt merkingu í ljósi dauðans en skortir hins vegar þá sátt við veruleikann
sem liggur að baki þeirri hugsun að maðurinn eigi að deyja á réttum tíma.
Jónas býr sig undir dauðann með því að flýja eigið líf á þeirri forsendu að
það sé ömurlegt, hann elskar ekki eigin örlög, svo vitnað sé til Nietzsches.
Hann lítur ekki á sáttina við eigin dauðleika sem forsendu skapandi lífs
heldur verður dauðinn að markmiði í sjálfu sér sem leggur lífið undir sig,
þráhyggju eða trúarsetningu; hann lifir fyrir dauðann, eins og Erla bendir
honum á. Vitundin um dauðann opnar augu hans fyrir frelsinu en leiðir
hann engu að síður til glötunar.
Það er í senn styrkur þessarar sögu og veikleiki að í henni er tekist á við
siðferðilegar hugmyndir frá sjónarhóli þess „brenglaða“. Styrkurinn felst í
því að sagan leiðir okkur inn í óravíddir sálar sem allajafna rata ekki inn í
skáldsögur samtímans; veikleikinn í því að glíma hennar við dauðann getur
ekki orðið lesendum leiðarvísir til sjálfssköpunar. Af því leiðir að sagan
lokast líkt og utan hennar sé ekki annað en tómið eitt, eða eins og sögu-
hetjan orðar það í lýsingu á veru sinni í húsi Erlu: „Stundum finnst mér
þetta hús vera eina húsið í veröldinni. Að fyrir utan dyrnar sé bara tóm. Ef