Saga - 1961, Blaðsíða 54
228
UPPHAF KRÖFU UM ÞINGRÆÐI
andi synjunarvald og bann við bráðabirgðafjárlögum.
Þeir nafnarnir voru sammála um flest atriði, en urðu að
beygja sig fyrir Benedikt, „því að hann var inn viður-
kenndi forvígismaður málsins og hafði mest fylgi í neðri
deild að höfðatali í þessu máli“.
Þessar upplýsingar gefur Jón Ólafsson í „opnu bréfi
til kjósendanna“ í Fjallkonunni 29. september 1889, ein-
mitt þegar hann og Benedikt Sveinsson áttu í hörðum deil-
um um stjórnskipunarmálið, og það var vatn á myllu Jóns
Ólafssonar að gera stjórnmálastefnu Benedikts tortryggi-
lega í augum kjósenda. Jón Sigurðsson frá Gautlöndum
var þá úr sögunni og gat ekki borið neitt vitni í málinu,
því að hann dó af slysi á leið til alþingis 26. júní 1889.
Benedikt Sveinsson neitar í svari við opnu bréfi Jóns
ólafssonar, að „verulegur ágreiningur“ hafi ríkt milli
þeirra þriggja flutningsmanna frumvarpsins.1)
Samt er nokkur ástæða til þess að treysta að einhverju
leyti frásögn Jóns ólafssonar. Hann og Jón Sigurðsson
frá Gautlöndum gerðu, eins og hér hefur verið rakið, þing-
ræðið að aðalstefnuskráratriðinu við endurskoðun stjórn-
arskrárinnar, og þeir álitu, að frestandi synjunarvald væri
að meira eða minna leyti nauðsynleg trygging þess, að
þingræðið kæmist á. Benedikt hafði aldrei ymprað á ósk
um þingræði, og á Þingvallafundinum 1885 beitti hann
sér gegn kröfunni um frestandi synjunarvald. Enn fremur
verður að álíta það sem staðfestingu á orðum Jóns ólafs-
sonar, að hann lagði fram breytingartillögur við umræð-
urnar í neðri deild, en þær höfðu einmitt að geyma bann
við bráðabirgðafjárlögum og miðuðu að því að setja póli-
tískara snið á landsdóminn en fram kom í þeim tillögum,
sem fyrir lágu.2) Við umræðurnar lagði Benedikt Sveins-
son hins vegar, eins og síðar verður raldð, aðaláherzluna
1) Norðurljósið 10/4 ’89.
2) Sjá hér á eftir, bls. 231 o. áfr.