Tímarit Máls og menningar - 01.11.1955, Blaðsíða 133
HEIÐIN
framan hefur aðeins verið gerð lítilsháttar tilraun til að bregða birtu yfir þró-
unarsögu eins helzta listaverks í íslenzkum bókmenntum. En ýtarlegri rannsókn
á einstökum atriðum mundi allsstaðar komast að sömu aðalniðurstöðu. „Veru-
leikinn“ í þrengri merkingu þess orðs — ákveðinn staður, ákveðin stund,
ákveðnir atburðir — hefur afarlítið að segja um listrænt gildi skáldverks.
Handritið frá 1929 er ólíkt háðari þeim veruleika heldur en skáldsagan frá
1934—35. En að sama skapi er Sjálfstœtt fólk ólíkt meira listaverk. Það er
varla hægt að hugsa sér öllu skýrara dæmi um þá staðreynd, að mikill skáld-
skapur krefst yfirlegu, kunnáttu og einbeittrar athygli. Ef þeim skilyrðum er
ekki fullnægt, þá er hætt við, að jafnvel hin persónulegasta reynsla skáldsins,
hinn spámannlegasti innblástur, mundi reynast skammvinn til listsköpunar.
I Eftirmála sínum að annarri útgáfu af Sjálfstœðu fólki kemst Halldór
þannig að orði: „Þegar ég hafði slept hendi af Bjarti í. lokakaflanum fanst
mér um stund einsog ég ætti ekki haldreipi leingur í veröldinni.“ Minnir það á
lýsingu hans á sálarástandi sínu tíu árum áður, undir svipuðum kringumstæð-
um: „Þegar ég hafði lokið við síðustu kapítula ,Vefarans‘ suður á Sikiley
haustið 1925, þá fanst mér ég standa uppi berstrípaður.“ (Alþýðubókin, 1929,
bls. 363.) Má vera, að hér sé ekki nema um eðlilega þreytu að ræða, nokkurs
konar tómleika- og saknaðartilfinningu höfundar, eftir að hann hefur lokið
miklu verki. Og þó er e. t. v. engin tilviljun, að skáldið skuli hafa lagt þvílíka
áherzlu á það sjónarmið einmitt í þessum tveimur tilfellum. Vefarinn mikli var
reikningsskil hans við margvíslega og sundurleita reynslu æsku hans á miklum
umbrotatíma. Hann var staddur á vegamótum, nýr þáttur að hefjast í æfi hans,
engin örugg leið framundan. En Sjálfstœtt fólk er á sinn hátt jafn þýðingar-
mikill áfangi á listabraut hans. Eftir ítrekaðar tilraunir og mikla mæðu hefur
honum tekizt að móta þar dýpstu reynslu sína af landi sínu og þjóð í stórfengi-
legt skáldverk, um leið fjölþætt og heilsteypt, raunsætt og táknrænt, rammís-
lenzkt og alþjóðlegt. í þá átt varð varla lengra komizt. Þegar þetta þrekvirki
var af hendi leyst, hvar átti skáldið að finna nýtt viðfangsefni við sitt hæfi?
Hvar var haldreipi hans í veröldinni?
323