Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Qupperneq 50
Tímarit Máls og menningar
En svona einfalt getur ekkert samband verið og það lærir Þorgeir Háv-
arsson. Hugtakið „ást“ er ekki til í orðabók hans. Að hans mati er sá karl-
maður „lægst lagður er að konum hokrar“ (73). I Gerplu er hann látinn
hatast við kvensemi Þormóðs og úr lýsingunni á viðbrögðum hans við
kynlífi Þormóðs má ekki aðeins lesa djúpstæðan hugmyndalegan ágreining
heldur og öll mynstur afbrýðisseminnar. Hann ávítar Þormóð fyrir daðrið
við Þórdísi, sækir hann í fang hennar, reynir að hleypa upp veislu Kol-
brúnar þegar hann sér hvert stefnir með þau Þormóð og sækir hann svo
síðar í fang hennar líka. Þormóður skilur aðskilnaðarótta og afbrýðissemi
Þorgeirs eins og kemur m.a. fram í þessum orðaskiptum:
Nú er þar komið, mælti Þormóður, að eg ann minnur en áður þeim kon-
um er fljúga í lofti.
Þess mun þig mest iðra, mælti Þorgeir Hávarsson; og er sá maður lægst
lagður er að konum hokrar.
Þá leit Þormóður kolbrúnarskáld á vin sinn Þorgeir Hávarsson og brosti:
eigi þarftu að spá mér hrakspám, fyrir því, mælti hann, að þitt höfuð mun eg
lofa sem vert er þá er nær dregur lokum. (73)
En í nærveru Þormóðs felst ekki minni ótti en í fjarveru hans. Þorgeir vill
ekki tengjast honum, óttast það, getur það ekki, enda væri það andstætt
skilningi hans á því hvað fóstbræðralagið er.
Það er freistandi að bera saman fóstbræðralag norrænna miðalda og
bræðralagið í forn-gríska borgarasamfélaginu eins og því er lýst af grísku
siðferðisheimspekingunum. Þeir hugsuðu ekki í andstæðunum: karl-kona,
af því að siðferði samfélagsins var mál frjálsra karlmanna, ekki kvenna eða
þræla. Yfirskipaðar andstæður voru: gerandi-þolandi. Gerandinn hafði
ekki aðeins hið þjóðfélagslega vald heldur og vald yfir sjálfum sér, líkama
sínum. Það hafði þolandinn ekki, hann var sá sem eitthvað var gert við.3
I Fóstbruebrasögu og Gerplu er sagt frá því að Þorgeir Hávarsson hrapar í
björgum við hvanntekju, hangir á einni hvönn en æpir þó ekki á hjálp. Þor-
móður kallar og spyr fóstbróður sinn hvort hann hafi ekki tekið nógar
hvannir. Þorgeir svarar: „Eg ætla að eg hafi þá nógar, að þessi er uppi er eg
held um.“ (157). Þormóður bjargar lífi hans og í Gerplu er Þorgeir aldrei
látinn fyrirgefa honum lífgjöfina.
Lýsingin á þessu atriði í Gerplu er mjög fyndin en kjarni hennar er graf-
alvarlegur. Lífshættan og lífgjöfin setja Þorgeir í hlutverk þolandans, kven-
hlutverk, í sambandi þeirra Þormóðs og hann verður ekki samur eftir þá
vanvirðu. Þeir fóstbræðurnir eru ekki lengur jafningjar. Tvískinnungur
hans gagnvart Þormóði, væntumþykjan, óbeitin, djúpstæður ótti hans við
aðskilnaðinn - allt speglast þetta í hryllilegasta morði bókarinnar.
304