Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Blaðsíða 79
Skáldkona á tímamótum
en fléttaður saman úr ótal sambærilegum atvikum sem kallast á, undir-
byggja það sem koma skal og þjóna skopskyni höfundar og tvíræðni, ekki
síður en andstæðar og hliðstæðar persónur. Með því að láta sögupersónur
verða tvísaga eða neyðast til að skipta um skoðun næst spenna í frásögnina
þó að atvikin sem sagt er frá séu yfirleitt hversdagsleg. Lesandinn tekur
auðvitað mark á því sem hann les þangað til honum er sýnt fram á að það
eigi hann ekki endilega að gera, þá verður hann að fara að vinna sjálfur,
endurmeta og draga nýjar ályktanir. Engin ein persóna er ótvíræð málpípa
höfundar.
Efnamaðurinn Bingley sem frú Bennet fær strax svo góðar vonir um
verður líka undir eins hrifinn af Jane, elstu systur Elísabetar, og ástarsaga
þeirra virðist ætla að vera af átakaminnstu gerð. Ekki dugar það, en Bing-
ley er svo vænn maður að það þarf að undirbúa „svik“ hans vandlega. Strax
í 3. kafla dettur frú Bennet í hug að hann sé flautaþyrill sem aldrei tolli
neins staðar til lengdar. Og í löngu, upplýsandi samtali á Netherfield í 10.
kafla heyrir lesandi ungan, áhrifagjarnan mann lýsa sjálfum sér - án þess að
skammast sín nokkuð fyrir það eins og Darcy bendir réttilega á. Hins veg-
ar er hneykslun Darcys á ístöðuleysi vinar síns ótímabær, því einmitt þenn-
an veikleika hans á hann eftir að notfæra sér til hins ítrasta.
Séra Collins hneykslar Elísabet meira en frá verður sagt þegar hann segir
henni að það sé ekkert að marka þótt hún neiti nonum í fyrsta skipti sem
hann biður hennar. Stundum neita konur biðli jafnvel tvisvar eða þrisvar,
segir hann, það er í samræmi við viðkvæmt kveneðlið og ber að líta á sem
uppörvun. Elísabet finnst þetta að vonum benda til þess að hann hlusti
ekki á hana í alvöru. „Ef þér takið orð mín fram að þessu sem hvatningu þá
veit ég ekki hvernig ég á að orða neitun mína þannig að þér trúið mér,“
hrópar hún upp yfir sig. Seinna er það svo hún sem vonar af öllu hjarta að
annar biðill ítreki bónorð sitt!
Lafði Catherine de Bourgh er sárhneyksluð á menntunarskorti Bennet-
systra, en svo kemur í ljós að hvorki hún né dóttir hennar hafa menntunina
sem hún ætlast til af öðrum. Ungfrú Bingley hefur líka stór orð um hvað
kona þurfi að hafa til að bera til að teljast vel menntuð en getur svo sjálf
ekki lesið bók án þess að drepast úr leiðindum.
Mörg önnur dæmi mætti nefna um mun á orðum persóna og gerðum,
andstæður og hliðstæður í hegðun og tali sem bera söguna áfram og halda
lesanda við efnið án þess að honum sé nokkurn tíma sagt hvað honum eigi
að finnast. Við getum aldrei treyst því að neinn hafi rétt fyrir sér - það ger-
ir söguna svo óvænta!
Hjónabönd eru mikið áhugamál höfundar og einnig þar setur hún upp
andstæður og hliðstæður. Eins og Charlotta Lucas, vinkona Elísabetar,
333