Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Qupperneq 109
Myndir á Sandi
forna goðsögn. Ollu heldur að leiða í ljós höfuðsannindi um mann og til-
veru, og í sumum tilvikum: að endurbyggja heiminn. Metnaður Fuglsins
virðist vera af slíku tagi. Höfundur reynir að samræma ýtrustu andstæður,
gera vitneskjuna bærilega, fylla orðleysuna merkingu. Markmið hans af lík-
um toga og Endurreisnarmannsins: að lesa úr teiknum heims og huga, af-
hjúpa launmál, sýna fram á einingu, samstæður. Svipuð viðleitni einkennir
fjölmargar skáldsögur seinustu ára. Aður hefur verið spurt hvort að baki
búi nútímaleg upplifun eða hvort um afturhvarf sé að ræða. Ekki verður úr
því skorið hér. Kannski öll endurnýjun sé að einhverju leyti endurtekning.
Alltént er víst að tungumál nútímabókmennta er um eitt gjörólíkt tungu-
máli fyrri tíma. Það geymir vitund um skort eða eyðu: fjarveru frumtexta
og frumhöfundar; er að því leyti munaðarlaust.
Hinn upphaflegi texti sem fól í sér algilt táknmál og felldi saman orð og
vald hefur glatast, horfið sjónum manna. Nú á dögum leita flestir slíks
texta utan bókmenntanna: í sjálfum sér, djúpum dulvitundar, hinu orð-
lausa, augnablikum þegar „rósagarðar" opnast, tónlist, myndlist o.s.frv.
Margir nútímahöfundar leitast þó enn við að nálgast slíka reynslu. Sífellt er
reynt hið ómögulega, að þenja tungumálið út fyrir takmörk sín, láta þögn-
ina hljóma í gegnum orðið, mála með því heiminn. Leitinni að bókstöfum
hins raunverulega er haldið áfram þrátt fyrir kennd óraunveruleika og
óvissu.
Hin goðsögulega aðferð er afleiðing þessa ástands og tímanna tákn því
að hugsun okkar virðist sækja sífellt meira inn í heim goðsögunnar í leit að
svörum. Rökvísi hennar bendir á leið til að fylla tilveruna merkingu eða
öllu heldur gera slíka tilveru bærilega svo að maðurinn máist ekki út eins
og andlit á fjörusandi.
1) I ritgerðinni er hér og þar stuðst við grein mína „Hugleiðing um fugl orð og
reynd“ er birtist í Morgunblaðinu, 5. mars 1988. Hún fjallar um Fljótt fljótt sagði
fuglinn og geymir drög sumra þeirra hugmynda sem hér eru settar fram.
2) Sjá Michel Foucault: The Order of Things. An Archaeology of the Human
Sciences, New York 1973. (Frumútgáfa: Les Mots et les choses, Paris 1966).
3) í ritgerðinni eru þessi hugtök notuð í hefðbundinni merkingu: táknmyndin: sú
ímynd sem efnislegt form tákns hefur í huga viðtakanda; táknmiðið: sú merking
eða hugmynd sem tengist ímyndinni.
4) Michel Foucault: The Order ofThings, bls. 55
5) í ritgerðinni er stuðst við rannsóknir Davids Lodge á merkingarháttum í nútíma-
363