Skírnir - 01.01.1962, Side 43
Skírnir Rökræður Islendinga fyrr á öldum um hrossakjötsát
39
Hér er sýnilegt, að séra Gunnar hefur bæklinga Magnúsar
sýslumanns í huga og kennir þeim að nokkru leyti um
græðgislegt hrossakjötsát manna á þessum hörmungaárum.
Næsti maður, sem leggur orð í belg um hrossakjötsát, er
Ölafur amtmaður Stefánsson. Hann ritaði grein um hesta,
og birtist hún 1788 í Lærdómslistafélagsritunum. Þar varp-
ar hann fram þeirri spurningu, hvaða gagn menn geti haft
af þeim hestum, sem þeir eigi umfram þarfir. Hann er í hálf-
gerðum beyglum með svarið: „Hvar til bágt verður öðru að
svara en því, er skólameistarinn Arngrímur Vídalín hefir
álitið bragðandi, nefniliga að selja þá til dragónahesta, hverju
conferenceráð Jón Eiríksson hefir verið samdóma (nmgr.:
Sjá hans Deo, Regi, Patriæ, side 142) “52) Einnig nefnir Ólafur,
að hestafeiti megi nota til ljósmatar, og hefur þá hugmynd
sína vitaskuld frá Magnúsi Ketilssyni. Loks segir Ólafur, að
sumir noti hrossakjöt til agns fyrir hákarl og til refaveiða
við skothús.53) Hins vegar er hann algerlega andvígur notk-
un hrossakjöts til manneldis og spyr: „I hverju áliti mundu
landar vorir vera, ef þeir einir af öllum kristnum í norður-
hálfunni legðust í hrossa-kjöts át? Það á því hér eftir sem
hingað til að vera harðliga bannað sem viðurstyggð, nema
þá óumflýjanligt lífstjón liggur við.“54)
Þegar kemur fram um aldamótin 1800, hefur eitthvað ver-
ið farið að draga úr andúð fólks á hrossakjötsáti. Bæklingar
Magnúsar Ketilssonar hafa vakið marga til umhugsunar um
málið og stuðlað að því að kveða niður hégiljumar. Og trú-
lega hafa farið að renna tvær grímur á suma, er það fréttist,
að hrossakjöt væri talið herramannsmatur í Danmörku. Finn-
ur Magnússon segir frá því, að á ámnum 1802—1804 hafi
hrossakjötsát mjög tekið að tíðkast í Kaupmannahöfn, „hvar
fæða sú var í stöku gestaboðum höfð á herraborðum og álitin
að vera með ljúffengasta kjötmat, en líklega hefir hún verið
tilbúin á hreinlegri og betri hátt en kotungar vorir brúka í
hallæris-tíðum“.55)
Fyrsti Islendingurinn, sem hafði þor til þess að mæla opin-
berlega með hrossakjötsáti, var Magnús dómstjóri Stephensen.
Gerðist það árið 1808. Þá var ærið þröngt í búi á íslandi.