Skírnir - 01.01.1962, Síða 49
STEINGRÍMUR JÓNSSON:
UM NÝYRÐI í TÆKNIMÁLI.
HUGLEIÐINGAR Á VÍÐ OG DREIF.
Þegar eg var við verkfræðinám í Kaupmannahöfn á árun-
um 1910—1917, fór öll kennsla að sjálfsögðu fram á dönsku,
en segja má, að svo hafi ekki verið að öllu leyti áður, er
þýzkar og franskar kennslubækur höfðu verið notaðar á öld-
inni á undan. En þótt talað væri á dönsku, var tæknimálið
æðimikið blandað erlendum orðum, einkum af rómönskum
uppruna, sem fengin voru úr ensku eða frönsku, en einnig
voru nokkur orð af þýzkum uppruna, stundum afbakað
handverksmannamál. Það var útbreidd skoðun þá á Norður-
löndum, að þetta væri æskileg málþróun, því við það yrði
tæknimálið auðlærðara, þegar það félli að miklu leyti saman
við tæknimál stórþjóðanna. 1 raffræðinni voru því hiklaust
tekin upp orðin dynamo, generator, transformator (úr þýzku
eða frönsku)1), konverter (frá enskunni), omformer (frá
þýzkunni, Umformer). Þá voru orð eins og seriemotor, shunt-
motor, kompoundmotor, kommutator, kollektor, parallelsy-
stem, seriesystem o. m. fl., er telja mætti upp, er voru meðal
grundvallarhugtaka og heita í sterkstraumsraftækninni þá.
Það bar þó snemma á þvi hjá Þjóðverjum, að þeir tóku að
þýða hin evrópsku orð á sitt mál. Þeir gátu ekki fellt sig við
enska orðið shunt, en kölluðu það Nebenschluss, en við affall.
Einnig kom snemma fram orðið Umspanner fyrir transforma-
tor, en það virðist þó ekki hafa náð verulegri fótfestu hjá þeim.
Á Norðurlöndum þótti það ekki tiltækilegt að fást við slík-
ar þýðingar og eigi talið æskilegt heldur um þetta leyti. Svo
hafði þó eigi ávallt verið, því þegar tækniháskólinn í Kaup-
mannahöfn var stofnaður 1829 undir forstöðu H. C. Örsteds,
J) Enskan hefir tramformer. Breyttu Danir til og tóku upp þá orð-
mynd fyrir rúmum 10 árum og töldu það samlögun við málið.