Skírnir - 01.01.1962, Side 86
82
Jón Thór Haraldsson
Skírnir
en um aðferðina urðu menn ekki á eitt sáttir. Að lokum var
þó ákveðið að leita á náðir þingsins, og var Paine einn helzti
hvatamaður þess, að sú leið var farin. Það sýnir álit það, er
menn höfðu á Paine, að honum var falið að fylgja málinu
eftir. Sumarið 1772 skrifaði Paine lítinn bækling og nefndi
The Case of the Officers of Excise. Veturinn 1772—73 fékk
hann leyfi frá störfum og dvaldist í London. Bæklingur þessi
var prentaður og honum útbýtt meðal þingmanna og annarra
þeirra, er áhuga höfðu. Tollverðir kostuðu Paine með frjáls-
um samskotum.
Því er skemmst frá að segja, að allar urðu þessar aðgerðir
árangurslausar. Þingmenn sinntu málinu ekki, og þeir, er
fóru með stjórn þessara mála, svöruðu stutt og laggott, að
sérhverjum óánægðum væri frjálst að hætta — svo margir
væru á biðlista, að skarðið gætu þeir fyllt samdægurs. Það
segir sig sjálft, að hlutdeild Paine’s í þessu máli var sízt til
þess falin að auka honum velvild yfirboðara sinna.
Bæklingur þessi er hið fyrsta, sem eftir Paine birtist á
prenti. Meginröksemd hans er sú, að tollverðir gegni svo
ábyrgðarmiklu starfi, að hlífa verði þeim við freistingum.
Hann segir sem svo, að fátækt leiði til þess, að menn lúti að
nær hverju sem er. „Þúsund smásmugulegar röksemdir má
bera fram því til stuðnings, að heiðarleikinn verði sá sami í
hinum erfiðustu kringumstæðum. Sá, sem aldrei hefur fund-
ið til hungurs, getur rætt af þekkingu um matarlyst sína og
hinn, sem aldrei hefur verið í kröggum, jafnfagurlega um
mátt siðareglunnar. En fátækt leiðir líkt og sorg til ólækn-
andi deyfðar, sem aldrei heyrir, allir partar ræðunnar missa
mátt, og „að vera eða vera ekki“ verður hið eina, sem máli
skiptir“.
Á meðan þessu fór fram, fór fjárhagur Paine’s dagversn-
andi og hafði raunar aldrei góður verið. Tóbaksbúðin, sem
áður er getið, hlóð á sig skuldum. Vorið 1774 var svo komið,
að lánardrottnar Paine’s tóku alvarlega að ókyrrast. Gerðist
nú margt í senn: Paine var frá vinnu í nær hálfan mánuð
og fór huldu höfði — e. t. v. hefur hann reynt að verða sér
úti um lán til þess að rétta fjárhaginn við. Yfirboðarar hans