Skírnir - 01.01.1962, Side 99
Skírnir
Tom Paine
95
hliðar mannlegs lífs, sem við honum blöstu. í Mannréttind-
um bregður þó fyrir brosi. Hann gerir góðlátlegt gys að Burke,
sem óneitanlega lá vel við höggi. Maður, sem hélt því fram
í fullri alvöru, að hundrað ára gömul hollustuyfirlýsing enska
þingsins væri um aldur og ævi bindandi fyrir þjóðina, gat
naumast átt kröfu til þess að vera tekinn sérlega alvarlega.
Paine segir: „Það hefur aldrei verið og mun aldrei verða til
það þing, samkunda eða kynslóð manna í neinu landi, sem
hafi rétt eða vald til þess að stjórna framtíðinni um „alla ei-
lífð“. Sérhver öld og kynslóð verður sérhvert sinn að vera
jafnfrjáls að stjórna málum sínum sjálf og undanfarandi ald-
ir og kynslóðir. Hégóminn og hrokinn að ætla sér að stjórna
út yfir gröf og dauða er hlægilegasta og ósvífnasta harðstjórn,
sem um getur.“ Og hann heldur áfram: „Þingið 1688 hefði
eins getað gefið út um það tilskipun, að þingmenn skyldu
verða eilífir og að vald þeirra skyldi lifa að eilífu.“
Fyrri hluti Mannréttinda er að mestu lýsing og skilgrein-
ing á frönsku byltingunni og jafnframt svar við árásum
Burke’s. Seinni hluti bókarinnar fjallar svo um almenn stjóm-
mál og þá einkum ensk. Hér er að finna aðalatriðin í stjórn-
málaskoðunum Paine’s, og það var fyrir þann hluta bókar-
innar, sem hann var útlægur ger.
Paine lýsir því yfir, að enska þjóðin hafi aldrei hlotið rétt-
láta meðferð og stjórnarfar í Englandi sé rotið og spillt. Burke
hafði sagt: „Fulltrúakerfi vort hefur reynzt fullkomlega fært
um allt það, er krafizt verður af fulltrúakerfi fyrir fólkið.
Ég skora á óvini stjórnarskrárinnar að sýna fram á hið gagn-
stæða.“ Þessu svarar Paine stutt og laggott: „Þessi yfirlýsing
frá manni, sem verið hefur í stöðugri andstöðu við allar gerð-
ir þingsins allan sinn stjórnmálaferil að einu ári eða tveim
undanskildum, er meir en lítið furðuleg og á sér þá skýringu
eina, að hann hafi brotið gegn dómgreind sinni sem þing-
maður eða skrifað gegn henni sem rithöfundur.“
Meginkenning Paine’s er sú, að þjóðin sjálf verði að fara
með allt vald í réttlátu fulltrúakerfi og úreltar stofnanir að-
als og þó einkum arfgengs konungdæmis verði að hverfa.
Hér er borin fram af fullum þunga lýðræðiskrafa framsækn-