Skírnir - 01.01.1962, Side 180
172
Njörður P. Njarðvík
Skírnir
þess sem hann getur þess sjálfur, að sér hafi í upphafi verið
á móti skapi að yrkja þau. Enda segir hann, að sér hafi fund-
izt fátt um þau.
Beztu þjóðhátíðarkvæði séra Matthíasar eru að mínum dómi
lofsöngurinn og þjóðhátíðarsálmarnir tveir, sem hér eru tekn-
ir fyrir sem eitt kvæði. Þar er skáldið ekki bundið neinum
forsögnum, heldur getur það beint þeim hugsunum til þjóð-
arinnar, sem það álítur mikilsverðastar. Því eru það þessi
tvö kvæði, sem geyma lykilinn að viðhorfi skáldsins gagn-
vart þessum tímamótum og þáttaskilum í lífi íslendinga.
Próf. Steingrímur J. Þorsteinsson segir í formála fyrir út-
gáfu á þjóðsöngnum 1957, að „Matthías Jochumsson sé eitt-
hvert víðfeðmasta, andríkasta, mælskasta — afkastamesta og
mistækasta stórskáld Islendinga frá öllum tímum“. Ég held,
að betur verði séra Matthíasi vart lýst í einni málsgrein. Og
ekki hvað sízt á þetta við um þjóðhátíðarljóð hans.
Af öllu þessu er það ljóst, að séra Matthías hefur allmikla
sérstöðu meðal þeirra skálda, sem yrkja ljóð i tilefni þess-
arar hátiðar. Efni kvæðanna er nokkuð annað, og án efa
hefðu þau verið öðruvísi, ef hann hefði ort þau öll af eigin
hvöt. Þess vegna verður að hafa á nokkum fyrirvara, ef
reynt er að gera grein fyrir, hvert þessi skáldskapur séra
Matthíasar beinist í heild sinni. Vart verður hjá því komizt
að skipta kvæðunum í tvo meginflokka eftir því, hvort þau
em ort af eigin hvöt eða ekki.
Fyrri flokkurinn er auðveldari viðureignar. Þar er einkum
tvennt, sem mest ber á: trúin og elskan til þjóðarinnar. Boð-
skapurinn er einfaldur, en ekki minni af þeim sökum: eflum
trú okkar á guð; felum okkur forsjá hans og sækjum fram til
frelsis. Þetta tvennt er samtvinnað, eins og þegar band er
snúið úr tveim þáttum og hættir að vera band, ef annar hvor
þátturinn tapast. Mér þykir ólíklegt, að séra Matthías hafi
ort hin meiri kvæði sín í tilefni hátíðarinnar til þess að létta
á huga sínum eingöngu eða til túlkunar þeim hugsunum,
sem leituðu á hann persónulega. Matthías yrkir þessi ljóð
ekki fyrir sjálfan sig fyrst og fremst, heldur vill hann hvetja
þjóð sína til dáða og reyna að endurvekja hana siðferðilega.