Skírnir - 01.01.1962, Page 242
Skímir
234 Ritfregnir
ver;i maður til að gera. Hann ætlar að varpa frá sér öllum lifsþægindum
til að eiga sinn draum í friði.
En vegurinn til auðnuleysis er líka torsóttur. Einnig þar hittir hann
fyrir ofjarl sinn, og er það Natan. „Það þarf nefnilega þrek til að fara
í hundana," segir Natan við hann af ekki litilli sjálfsánægju. Og þessi
þaulæfði svallari leggur Stefáni lífsreglumar: „Reyndu að fá það inn í
kollinn á þér, maður, að sá sem hefur ekki hæfileika til að fara 1 hund-
ana, verður að sætta sig við að gerast borgari, annað val á hann ekki,
skilurðu —“
Það verður ekki komizt hjá því að spyrja: hvað er Stefán — uppskafn-
ingur og gunga, listamannsefni á rangri hillu? Eða hvort tveggja? Þessu
er ekki svo auðvelt að svara. Eitt er þó víst: hann er draumóramaður.
Hann er í sifelldri uppreist gegn umhverfi sínu og reynist þeim verst,
sem eru honum beztir. Aftur á móti lætur hann sig ekki muna um að
snúast eins og vindhani eftir duttlungum Ármanns, þessa æskuvinar síns,
sem þó lítilsvirðir hann á allar lundir.
Það er freistandi að bera Stefán saman við annan draumóramann
íslenzkra leikbókmennta, séra Helga í Uppstigningu Nordals. Báðir hafa
átt sér þann æskudraum að ganga listamannsbrautina. Báðir lenda þeir
óvart í borgaralegum hlutverkum, hlaupast á brott lir þeim, en em svo
dregnir inn í þau aftur, nauðugir, viljúgir. Báðir eiga sér æskuvini, sem
ala á draumórum þeirra. Að öðru leyti eru þeir næsta ólíkar manngerðir.
Þótt Stefán sé aðalpersóna Gauksklukkunnar og sé lengst af á sviðinu,
er hann í raun og veru óskýrasta persóna leikritsins. Kann það að nokkru
leyti að skapast af ósjálfstæði hans gagnvart Ármanni. En það er fleira
en einstaklingseinkenni, sem hann skortir á við aðrar persónur verksins;
hann skortir einnig það skoplega, sem Agnari Þórðarsyni er svo lagið
að bregða yfir sumar manngerðir sínar, meðal annars i þessu verki.
Þá er spurning, hvort Ármann er svo úr garði gerður, að samband
þeirra félaganna geti talizt sannfærandi. Að öðru leyti er hann næsta
sennileg persóna. Hann er ræfill og uppskafningur, svo að næstum minn-
ir á gortara Sigurðar Péturssonar. „Ég lýt engum,“ segir hann. „Ég býð
heiminum byrginn. Ég þori að vera það, sem lífið hefur ætlað mér .. .
ég get staðið einn, ég get staðið einn á móti þeim öllum, þessum maura-
púkum, sem trúa ekki á neitt nema hór, klám og peninga — ... Ég er
að skapa nýjan stíl, ég fer ótroðnar brautir . . .“.
Hvergi kemur það fram í verkinu, að orð hans séu annað og meira
en skrum eitt og skjal, enda tekur enginn mark á honum nema Stefán.
Ármanni nægir ekki minna en bera sig saman við Schubert. Hann læzt
vera að skapa ódauðleg listaverk og stjómar Stefáni með gullhömrum
og háðglósum til skiptis. Þrátt fyrir þetta er Ármann alls ekki ýkt per-
sóna. Það þyrfti ekki að leita lengi til að finna hliðstæðu hans. Þess kon-
ar manngerð er algeng nú á dögum.
Gréta, kona Stefáns, er andstæða eiginmannsins, laus við alla draum-