Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Page 25
Páll Skúlason
„Að lifa í trú“
Við lifum í trú - ekki í vísindum, íþróttum, stjórnmálum eða listum.
Nei, við lifum í trú. - Hvað merkir þetta? Þetta merkir að trúin er
óumflýjanlegt hlutskipti okkar: Við getum leitt vísindin hjá okkur, engu
skeytt um íþróttir, forðast stjórnmál og látið listirnar okkur í léttu rúmi
liggja. En ekki trúna. Trúin knýr okkur til afstöðu.
Hvers vegna?
Gefum efasemdunum orðið: Er ekki hægt að vera trúlaus? Kæra sig
kollóttan um öll trúarbrögð, allar kreddur eða kennisetningar, einnig
kristinnar kirkju? - Vissulega, en ekki er þar með sagt að við séum laus
undan trúnni: Trúleysinginn er ekki laus undan allri trú, heldur þeirri
sem hann taldi íjötra sig. Trúin er eftir sem áður hlutskipti hans: Hann
hlýtur að trúa - spurningin er „hverju?“
Til forna hljóðaði eitt svar þeirra, sem losuðu sig úr viðjum fornra
trúarbragða, með svofelldum hætti: „Eg trúi á mátt minn og megin.“ Þetta
svar er í fullu gildi fyrir alla trúleysingja: Á hvað annað er vert að trúa,
annað en einmitt þetta - þann mátt sem hverri manneskju er gefinn,
möguleikana sem við henni blasa? Á hvað annað skal trúa?
En má ekki líka hafna þeirri trú og trúa engu? Hvað er þetta „ekkert“
sem maður trúir þá á? Hver er trú þess sem trúir engu og trúir á
ekkert? Er hún nokkur? Svo virðist ekki vera. En er alger trúarleg
tómhyggja möguleg? Forsenda hennar virðist mér vera sú að hægt sé að
hugsa þá hugsun til enda að enginn sannleikur sé til, enginn veruleiki
sem unnt sé að reiða sig á.
Því vil ég hafna. Við hljótum að trúa því að eitthvað sé satt, sé til í
sannleika. Hugsun sem hugsar eintóman ósannleika virðist mér ekki
geta verið til. Kannski skjátlast mér. En forsenda þess að mér skjátlist er
sú að til sé sannleikur sem mér er ókunnur. Sannleikurinn er þannig
gefinn sem forsenda þess að ég geti hugsað og jafnvel velt fyrir mér þeim
möguleika að allt sé blekking.
Þess vegna er trúin hlutskipti mitt - og líka ykkar sem skiljið mig eða
misskiljið. Þess vegna sló ég fram þessari fullyrðingu: „Við lifum í trú.“ En
23