Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 46
„Sjáið merkið, Kristur kemur, krossins tákn hann ber“
I samvinnu við æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar var fulltrúum frá náðar-
gjafahreyfingunni í Svíþjóð boðið að taka þátt í popphátíð sem halda átti
um hvítasunnuna 1972 í Laugardalshöll. Um svipað leyti árið áður hafði
Bernharður Guðmundsson, æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar, tekið þátt í
unglingahátíð í Saltvík á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem
hljómsveitin Trúbrot flutti tónverk en Bernharður haíði stuttar hugleið-
ingar milli atriða, svo úr varð heildstætt verk.
I ljósi reynslunnar frá Saltvík væntu aðstandendur hátíðarinnar í
Laugardal þess að náðargjafahópurinn, sem samanstóð af sex Svíum og
einum Norðmanni, myndi mæta með popphljómsveit í Laugardalinn, en
annað kom á daginn. Hinir norrænu gestir höíðu aldrei leikið saman í
neinni hljómsveit en mættu með tvo gítara upp á svið og sungu nokkra
trúarlega söngva en lítið heyrðist í hópnum í hinum stóra sal. Tókst ekki
betur til en svo, að púað var á hópinn og hann hreinlega hrópaður niður af
sviðinu. Menn gáfust þó ekki upp heldur dreifði hópurinn sér um salinn og
reyndi að mynda tengsl við unglingana. í lok samkomunnar hafði
myndast talsverður hópur, sem sat fram á gangi og söng kristilega
söngva og hlustaði á stutta vitnisburði.
Nánast fyrir tilviljun hafði Jónas verið fenginn til að túlka mál þessa
sænsk-norska náðargjafahóps. Nokkrar samkomur voru haldnar með
hópnum, bæði í kirkjum og í KFUM og KFUK, og fylgdi Jónas hinum
norrænu gestum sem túlkur og prédikaði á sumum samkomunum. Voru
samkomurnar afar vel sóttar og fjöldi fólks varð fyrir sterkum áhrifum,
einkum unglingar úr röðum KFUM og KFUK. Um sumarið komu nokkrir
úr hópnum aftur til Islands og héldu fleiri samkomur og þegar haustaði
hafði myndast hópur um tuttugu ungmenna er hittist vikulega í
heimahúsum. Friðrik Schram og Eiður Einarsson voru meðal þeirra sem
fljótlega urðu leiðtogar hópsins, en þeir voru báðir virkir í starfi KFUM og
KSF, eins og fleiri ungmenni í hópnum.
Þegar frá leið sóttist íslenski náðargjafahópurinn eftir því að standa
fyrir samkomum og hóf að þýða efni um starf og gjafir heilags anda. Ekki
féll leiðtogum KFUM og KFUK alls kostar við allt sem þar kom fram og
vildu ekki að hópurinn stæði fyrir samkomum í nafni félaganna.
Einangraðist hópurinn því smám saman frá almennu starfi KFUM og
KFUK og varð upphafið að stofnun Ungs fólks með hlutverk (UFMH) sem
fékk fast skipulag í júní 1976 og starfar enn, en hefur klofnað í fleiri áttir
síðastliðna tvo áratugi.37
37 Árið 1972 voru í Noregi stofnuð samtökin Ungdom i Opdrag sem segja má að hafi verið
fyrirmynd að stofnun UFMH hér á landi. Þess má geta að trúfélagið Vegurinn rekur
m.a. uppruna sinn til UFMH og frá og með haustinu 1997 mun UFMH einnig fá
viðurkenningu sem sjálfstætt trúfélag hér á landi.
44