Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 55
Jónas Gíslason
Vér vinnum verkið
Svipmyndir úr sögu Skálholts1
I
Gamall maður gengur um stéttir á biskupssetrinu í Skálholti, hægt -
sýnilega í þungum þönkum. Hann staldrar oft við á göngunni og virðir
fyrir sér hús staðarins, ekki sízt dómkirkjuna reisulegu, sem ber við
himin.
Ögmundur biskup Pálsson er valdamesti maður landsins og umsvif
hans fara vaxandi, eftir að borgarastyrjöld brauzt út í danska ríkinu. Nú
ber hann einnig ábyrgð á innheimtu og varðveizlu konungstekna úr
biskupsdæmi sínu, þar til styrjöldinni lýkur.
í nógu er því að snúast á biskupssetrinu. Og engan þarf að furða, þótt
nokkrar áhyggjur sæki að gamla manninum. Hann riíjar upp fortíðina.
Ymislegt mótdrægt hefur yfir hann gengið í lífinu.
Dómkirkjubruni. Skipstapi, einn eða fleiri. Stórtjón, sem biskupi ber
sjálfum að bæta. Það kemur sér vel, að hann er í góðum efnum.
Þungar áhyggjur sækja að honum. Hvernig á hann að anna þessu
aukna álagi?
Undarlegur maður, þessi vestfirski biskup. Honum er svo lýst í
heimildum:
„Biskup Ögmundur Pálsson var mikill maður vexti, bæði hár og
þykkur, geðmenni mikið, gulur á hár og fagureygður, smáeygður, en lítt
hafði hann verið upp á skartsemi, og hirti ekki um, hvernig það trassaðist,
svo er hann hafi ekki optsinnis bundið leggböndin. Hann var harðfenginn
maður, stórorður og áhugasamur. . .“
Að vísu er hann nú allmjög tekinn að lýjast, auk þess sem sjón er farin
að daprast. Elli kerling sækir að. Þó er hann enn vel að manni. Átta árum
síðar áttu danskir dátar fullt í fangi með að ráða við hann.
^ Flutt á Skálholtshátíð 22. júlí 1990.
53