Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Page 130
Hún er systir mín—
Öll erum við kölluð til ráðsmennsku með eigum Guðs á jörð. Við eigum að
ávaxta þær og nota öðrum til góðs. Og að lokum verðum við kölluð til að
ljúka reikningsskilunum. Um þetta fjallar guðspjallið í dag.
Og þá er ekki aðeins spurt um andlegu verðmætin, heldur einnig um
veraldlegu gæðin, fjármunina. I lokaskilunum verðum við einnig spurð um
meðferð okkar á hinum tímanlegu gæðum, bæði sem einstaklingar og þjóð.
I Rómverjabréfinu ritar Páll postuli svo: Eg er í skuld!
Skuld getur myndazt á tvennan hátt: Ég fæ eitthvað að láni til eigin
afnota og þá skulda ég lánveitandanum.
En skuld getur einnig myndazt þannig, að mér sé falið að koma
einhverju til skila til þriðja manns. Þá er ég í skuld við þann mann, þar til
ég hef skilað af mér því, sem mér var falið að koma til skila.
Brátt munum við minnast eitt þúsund ára afmælis kristnitökunnar á
Alþingi. Og enn lengur hefur Kristur verið játaður á íslamdi. Allt frá
upphafi mannabyggðar hefur Kristur átt hér lærisveina og til þeirra hafa
hljómað boð hans: Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum!
Og hér gegndi Skálholt lykilhlutverki sem miðstöð íslenzkrar kristni.
Hér reis fyrsta biskupssetur Islands og héðan streymdi blessun Guðs út í
allt þjóðlífið.
A þessum helga stað hlýtur að vakna spurningin um það, hvort við
höfum hlýðnazt hinzta boði Krists og komið því til skila, er hann fól okkur.
Hljótum við ekki með hryggð að játa skuld okkar við þá, er við við áttum
að flytja fagnaðarerindið. Við höfum um of haldið fyrir okkur sjálf því, sem
við áttum að deila með öðrum.
Við stöndum öll í sporum rangláta ráðsmannsins og hljótum því að
spyrja eins og hann: Hvernig getum við búið okkur undir reikningsskilin
við Guð? Þessi spurning er áleitnari í mínum huga en nokkru sinni fyrr
eftir þessa ferð mína austur í Asíu.
Sýnum fyrirhyggju og búum okkur undir reikningsskilin — ekki á
sama hátt og rangláti ráðsmaðurinn með því að svíkja og falsa. Förum
heldur að orðum Krists í niðurlagi guðspjallsins og öflum okkur líka vina
með hinum rangláta mammon.
Okkur er trúað fyrir miklum veraldargæðum og því verður mikils af
okkur krafizt. Við verðum spurð um ráðsmennsku okkar, meðferð okkar á
gjöfum Guðs.
Gjöldum skuld okkar við líðandi og örsnauða, látum okkur varða hag
þeirra, er vart fá dregið fram lífið vegna skorts. Við þurfum aldrei að
spyrja eins og Kain forðum: A ég að gæta bróður míns? Okkur ber
sjálfsögð skylda til þess.
128