Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Page 190
Þjóðin var harmi lostin
Hann beitti sér fyrir endurreisn hins forna biskupsseturs í Skálholti
sem kirkjulegrar miðstöðvar, er síðan var afhent Þjóðkirkju íslands til
eignar, og gekk þannig frá málum, að kirkjan hefur óskoraðan eignarrétt
yfir þeim helga stað.
Þjóðkirkja Islands stendur í mikilli þakkarskuld við hann fyrir forgöngu
hans í þessu máli.
Bjarni skildi gildi kristinnar trúar í mannlegu lífi og sótti helgar tíðir
flestum öðrum stjórnmálaleiðtogum betur.
Hann kom í Guðs hús til að sækja sér styrk og kraft í helgan boðskap.
Kirkjuganga hans var engin sýndarmennska fremur en annað í fari hans.
Eg kynntist Bjarna snemma og varð ungur annar af tveimur trúnaðar-
mönnum hans og ráðgjöfum í málefnum kirkju og kristni.
Mér varð þá strax ljóst, að þessi áhugi hans stafaði af einlægri löngun
hans til að efla kirkjuna til aukinna áhrifa í þjóðlífinu. Honum var alvara
með trú sína.
Það er bjart yfir minningum mínum um Bjarna Benediktsson. Ég
minnist hans með virðingu og þökk og tel mér til gildis, að hann skyldi
velja mig sem trúnaðarmann sinn. Það gaf mér tækifæri til hafa kynnast
honum allnáið, svo að ég tel mig geta metið afstöðu hans í trúarefnum.
Ég mun seint gleyma þeim harmi, er íslenzka þjóðin var lostin, þegar
fréttir bárust af brunanum á Þingvöllum.
Islendinga setti hljóða og á þeirri stundu átti ísland aðeins eina sál.
Aldrei hef ég fundið jafnglöggt og þá, hve mikill sannleikur er fólginn í
spakmælinu:
Enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur!
Og má ég aðeins bæta við þessum persónulegu orðum:
Þessa nótt missti ég persónulegan vin, sem ég hafði alltaf getað treyst!
Og þótt spakmælið segi: Maður kemur manns í stað, hlýt ég að segja:
Island verður seint hið sama fyrir mér og áður!
188