Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Qupperneq 198
Þegar Gullna hliðið var læst!
á löngum tíma? Er ekki lengur hægt að treysta því, að sjúklingar eigi
vísa vist á sjúkrahúsi, er heilsan fer að bila? Og eiga aldraðir, sem slitið
hafa sér út á langri ævi, ekki lengur vísa umönnun í ellinni?
Er hvergi hægt að spara annars staðar en þarna? Má þá ekki frekar
hækka skattana, ef engin önnur leið virðist fær?
Ég var á heimleið frá Hveragerði í Skálholt sumarið 1993, er ég heyrði í
fréttum, að stórri deild á Borgarspítalanum yrði lokað, af því að sjúklingar
heíðu orðið fleiri en búizt hafði verið við fyrri hluta ársins og kostnaðurinn
væri kominn langt fram úr áætlun!
Það lá við, að ég stöðvaði bílinn, svo mjög brá mér við þessa frétt. Er þá
svo komið, að peningar ráði, hvort við höfum efni á að veita sjúkum
nauðsynlega aðhlynningu? Kannski var ég viðkvæmari en ella, þar sem
ég var að koma af heilsuhæli eftir langvarandi erfið veikindi.
Skömmu seinna sá ég fyrir mér hræðilega mynd — í vöku eða draumi.
Ég stóð við Gullna hliðið og hugðist beiðast inngöngu, en hliðið var læst og
Lykla-Pétur hvergi sjáanlegur. A stórt spjaldi stóð: „Himinninn er
lokaður fram að áramótum! Allt er yfirfullt og rekstrarkostnaður kominn
langt fram úr áætlun! Við getum því miður ekki tekið við fleirum í
himnaríki á þessu ári.“
Þetta var hræðilegt! Hvað átti ég til bragðs að taka? Svo hrökk ég upp!
Guði sé lof! Þetta var þá bara martröð!
Og nú ætla ég að verða svolítið persónulegur.
í árslok 1992, er ég bjó í Skálholti, fékk ég blóðtappa við heilann og var
lagður inn á Grensásdeildina. Mér fannst stórkostlegt að kynnast
starfinu, sem þar er unnið. Þar hitti ég fyrir 'engla', sem framkvæma það,
sem við prestarnir prédikum um: Starfsfólkið þjónar Guði og náunganum í
kærleika.
Raunverulega má segja, að allt starfsfólkið — læknar, hjúkrunar-
fræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk — sé hendur og fætur Jesú, þótt
það gjöri sér það alls ekki ljóst sjálft.
Hvergi hef ég orðið vitni að jafnmörgum kraftaverkum og þar.
Stórkostlegt var að fylgjast með framfórum margra sjúklinga, þegar þeir
voru að læra að ganga á ný, fyrst í göngugrind, síðan með staf og loks
hjálparlaust. Hverjum nýjum sigri var fagnað, því að hann vakti nýja von
hjá þeim sjúklingum, sem skemmra voru komnir.
Sumir áttu litla sem enga von um bata, en höfðu legið í mörg ár.
Æðruleysi þeirra vakti aðdáun. Þetta eru hetjur hversdagslífsins!
Ætli það sé ekki erfitt að meta til fjár árangurinn af starfsemi
Grensásdeildarinnar — og annarra hliðstæðra stofnana?
196