Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 199
Jónas Gíslason
Ég gat hvorki staðið né gengið, er ég kom á Grensásdeildina og ég varð
að fá aðstoð við að fara á snyrtingu. Strax var hafizt handa um
endurhæfingu mína, því að ég þurfti að læra að ganga á ný.
Á sjúkrahúsi myndast oft náið samfélag. Sjúklingunum hefur verið
kippt út úr daglegu lífi og lagðir til hliðar um sinn. Þá vakna oft erfiðar
spurningar: „Hvers vegna ég, Guð? Hví ligg ég hér, ósjálfbjarga?"
Og oft eiga aðstandendur sjúklinganna ekki síður erfitt.
Það var mikið hugsað, talað og glímt við Guð á Grensásdeildinni og mér
varð enn ljósara en áður, hve Guð er raunverulega nálægur í þjáningunni.
Ég dáðist oft að sálarstyrk sjúklinganna og aðstandenda þeirra.
Það vakti athygli mína, hve náið samband myndaðist oft milli
sjúklinganna og starfsfólksins, sem var áhugasamt og hvetjandi og
reiðubúið að hjálpa sjúklingunum á allan hátt, enda fann það sig gjöra
gagn og sá beinan árangur af starfi sínu.
Ég þori að fullyrða, að þjónustan á Grensásdeildinni standist fyllilega
samanburð við það bezta, sem gjörist annars staðar. Hún er glöggt dæmi
um frábæra stofnun, sem tekizt hefur, með þrotlausu starfi, að byggja
upp á löngum tíma, þar sem ótrúlegur árangur hefur náðst í
endurhæfingu sjúklinga. Um það get ég hæglega borið af eigin raun.
Þegar ég heyrði, að taka ætti hluta af Grensásdeild og breyta í
langlegudeild, svo að hægt yrði að selja Heilsuverndarstöðina við
Barónsstíg, fann ég mig tilneyddan að stinga niður penna.
Auðvitað er nauðsynlegt að spara og heilbrigðiskerfið er afar dýrt í
rekstri. En flýtum okkur hægt við að ákveða, hvað og hvar á að spara í
heilbrigðisþjónustunni, svo að þar verði ekki unnið lítt bætanlegt tjón á
stofnunum, sem hafa sannað ágæti sitt.
Má ég að lokum minna á, hvað Kristur segir um skyldur okkar við
sjúka og þurfandi í Mattteusarguðspjalli 25. kafla, og versunum 31-46?
Hann mat þá til jafns við sjálfan sig: „. . .hungraður var ég, og þér gáfuð
mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og
þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í
fangelsi og þér komuð til mín.“
Er menn spurðu undrandi, hvenær það hefði gjörzt, var svar Jesú
þetta:
'Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu
bræðra, það hafið þér gjört mér.'
Þetta eru alvarleg orð af munni Jesú sjálfs.
Á ég að trúa því, að þúsund ára afmælis kristnitöku verði minnzt
hérlendis með því að minnka verulega þjónustuna við þá, sem sjúkir eru
og aldraðir, og að gamli flokkurinn minn fari þar í fararbroddi?
197