Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 11
SVEINN ÞORVALDSSON SKAKMABUR
þá reikningsnám ekki sízt. Kom það fyrir vetur hans í unglingaskól-
anum, þegar meira reyndi en áður á stærðfræðilega hugsun, að hann
tæki kennara sínum fram í þeirri grein. Hann var og heilsteyptur í
lund og reglusamur, neytti til að mynda hvorki víns né tóbaks, mjög
stilltur og dagfarsprúður, og var hverjum manni hlýtt til hans.
Sveinn var hlédrægur, dulur og alla jafna fáskiptinn, þó aldrei af-
undinn eða þóttalegur. Á vinafundum átti hann til létta gamansemi
og fjörgaðist þá allur, en hömlulítinn gáska kunni hann síður að
meta og hélt aftur af vinum sínum, ef honum þótti þeir geysast um
of. Hann kunni að smíða vísur, en notfærði sér það víst sjaldan. Eitt-
hvert sinn fylgdist hann með tveimur mönnum, er sátu að tafli, og
mælti þá:
Ekki er að spyrja að aflinu:
Óðum hrókum slengdi.
Tímanlega í taflinu
tók hann frúna og hengdi.
Sveinn gaf sig ekki mikið að félagsmálum opinberlega. Hann gekk
í ungmennafélag og verkamannafélag; að stjórnmálaskoðun var hann
róttækur sósíalisti og hélt þar fast á máli sínu við hvern sem var að
skipta.
Sveinn Þorvaldsson var rífur meðalmaður á hæð, grannlegur, lot-
inn dálítið í hálsi og á herðar, en léttur í hreyfingum. Hann var
bjartur á svip, ljósskolhærður og hárið þykkt, augun ljósgrá, mó-
kembd. Nefið var alllangt og beint, þó ekki hvasst, varir í þykkara
lagi; hakan meðalstór, en ekki framstæð. Hann var langleitur, og
drættir í niðurandliti fremur slappir og virtist því deyfð búa í svipn-
um, en hún var undir eins á burt, þegar honum hýrnaði í skapi.
Upplitið var hægt og allt yfirbragðið rólegt og góðmannlegt.
í janúar árið 1915 var taflfélag stofnað innan ungmennafélagsins
Tindastóls á Sauðárkróki. Það gekkst nokkur ár fyrir taflæfingum,
og úr sjóði þess skyldi verja peningum til kaupa á manntöflum og
skákritum. Félagið var fámennt, þó ekki einskorðað við ungmenna-
9