Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 125
GISSUR JARL
er gáð, kemur í Ijós, að sá siður að reka nagla í leiði, er eingöngu
tengdur þeirri aldagömlu þjóðtrú að festa niður draug, enda órök-
rétt að álíta, að grafarnaglar hefðu verið notaðir í öðrum tilgangi
af þeim, sem slíku trúðu. Þessi þjóðtrúarsiður var ekki eingöngu al-
þekktur hér á landi, heldur og víða um lönd, allt út fyrir hinn
kristna heim, í mörgum tilbrigðum. Er helzt að nefna staurnegling-
ar, sem um eru til dæmi allt frá steinöld, og þann sið að reka nagla
í gegnum brjóst hinna dauðu, í iljar þeirra, í lok eða gafla á lík-
kistum, í grafirnar við höfðalag eða til fóta eftir ýmsum reglum.1
Þegar litið er nánar á orðalag Björns á Skarðsá um koparnaglana,
virðist hann ætla, að samtímamenn Gissurar hafi sett þá í legstað
hans þegar eða skömmu eftir greftrunina. En þar sem tæpar fjórar
aldir líða, unz þessi sögn er skráð, mætti eins álykta, að fólk hafi,
er frá leið, bendlað koparnaglana við gröf hans, en upprunaleg saga
þeirra verið gleymd, eða þá að nöglunum hafi einhvern tíma síðar
verið komið fyrir í gólffjölinni á þeim stað, þar sem talið var að
Gissur lægi undir. Hvað sem öðru líður, er staðsetning grafarinnar,
í miðju kirkjugólfi, mjög við hæfi þess ríka höfðingja, er gaf Stað
í Reyninesi sér til sáluhjálpar skömmu fyrir dauða sinn.
Eitt má telja fullvíst: Sögnin um, að Gissur jarl lægi grafinn á
þeim stað, sem naglarnir voru í kirkjugólfinu, hefði aldrei getað
myndazt meðal annarra manna en þeirra, er óttuðust hann eða höfðu
af honum illt orð, enda var þeim harðlynda valdsmanni trúandi
til að eiga ýmislegt sökótt við landa sína eftir dauðann ekki síður
en í lifanda lífi. Og hver veit nema nunnunum hafi stundum þótt
sem hann lægi ekki kyrr, þegar rökkvaði í klaustrinu á Reynistað.
1 Þjóðsögur Jóns Arnasonar I, bls. 253—54. Rvík 1954. Þjóðsögur Torf-
hildar Hólm, bls. 68—69- Rvík 1962. íslenzkir þjóðhættir, bls. 428—29,
eftir sr. Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Rvik 1945. (Sjá Inger M. Boberg:
Bibliotecha Arnamagnæana, Vol. XXIII, bls. 98. Hafniæ 1966.) Stith
Thompson: Motif-Index of Folk Literature II, bls. 454. Kh. 1955—58. í
þessu riti er vitnað til heimilda víða að úr heiminum. Má nefna t. d. Bidrag
til en ordbog over jydske almuesmál eftir H. F. Feilberg. Segir þar í II, bls.
61 undir „jærn": „nagler af jern drevne i grav giver fred for genfærd".
Er þar einnig vitnað í margar heimildir. Handwörterbuch des deutschen
Aberglaubens VI, bls. 815 („Toten festnageln").
123