Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 103
MERKIGIL
fyrir sýn lengra inn dalinn þeim megin, þegar horft er frá Merki-
gilinu norðanverðu. Heitir hæðin einu nafni Skarðshryggur. Þegar
áin hefur skorið sig gegnum framhlaupið, þá hefur sá hluti þess,
sem lengst gekk fram, fylgt Merkidal. Heitir þar Rollhóll. Æda má,
að nafnið sé gamalt, því að naumast er hægt að tala um hól lengur.
Svo mjög hefur hann látið á sjá, að réttara væri að kalla hann Klif
samkvæmt málvenju hér í dalnum. Skarðshryggur hefur einnig verið
skiljanlegra örnefni, meðan Rollhóll var enn hóll og áin rann gegn-
um framhlaupið í þröngu skarði. Innan við framhlaupið hefur áin
skorið sig gegnum allþykkt leirlag með lagskiptingu, sem minnir á
árhringi í trjám. Þetta leirlag hefur myndazt á botni þess vatns,
sem orðið hefur til við framhlaupið. Gæti verið ómaksins vert að
skoða þetta leirlag fyrir þá, sem læsir eru á þær rúnir, sem þar kynnu
að vera skráðar.
Báðum megin Skarðshryggjar eru samnefnd gil. Er Aftra-Skarðs-
hryggsgil allmikið klettagil hið efra. Þaðan er hjalli einn eða skál í
fjallinu ofanverðu, sem nær að Garðsgili. En það er klettagilið mikla
heimast á Bakkadal. Hjallinn milli giljanna er grasi vaxinn. Heitir
þar Drangaskál, fallegur staður og sérkennilegur. Athyglisvert við
þetta klettasvæði er, hve misgengi berglaga virðist mikið, en svo
munu jarðfræðingar kalla, þegar sama berglag kemur fram í mis-
munandi hæð með skörpum skilum. Hlýtur slíkt að stafa af jarðsigi
eða lyftingu nema hvort tveggja sé. Þessi sérkenni fjallsins verða
naumast skoðuð að gagni nema með nokkurri fyrirhöfn.
Fagridalur heitir gildrag, grasigróið að mestu, sem liggur norðan
við Merkigilið og samhliða því á kafla. Nær drag þetta norður fyrir
Strangalæk, sem er stór lækur skammt norðan við Merkigilið. Væri
freistandi að álykta, að Merkigilsá hafi grafið Fagradal endur fyrir
löngu. Brúnskurður heitir grasigróið gildrag, sem liggur úr Fagradal
suður í Merkigilið. Mætti ætla, að það væri yngra en Fagridalur.
Ef við lítum yfir Merkigilið og umhverfi þess af góðum sjónar-
hóli, þá gæti okkur dottið í hug, að þarna hefðu þrír verkfræðingar
unnið að. Hefði sá fyrsti ákveðið ánni farveg um Fagradal. Síðan
hefði annar komið til og breytt rennsli hennar lítils háttar. Hefði
þá Brúnskurður orðið til. Loks hefði sá þriðji kollvarpað fyrri hug-
101