Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 145
MINNZT NOKKURRA REYKSTRENDINGA
Þeir menn voru helzt umtalaðir á Reykjaströnd, sem voru dug-
legir og hagsýnir að afla sér og sínum bjargræðis úr sjónum með
ýmsum aðferðum.
Sjálfsagt hafa þær verið margar til sjóferðasögurnar úr því byggðar-
lagi, en því miður heyrði ég þær fáar og hef gleymt þeim, sem ég
heyrði. Þó ætla ég að reyna að punkta hér eitthvað niður, þó ég
viti, að það verður bæði sundurlaust og illa sagt og því engum til
gagns eða gamans, aðeins mér sjálfum til dægrastyttingar.1
Frá Þorvaldi Ólafssyni og Þorleifi á Reykjum
í KRINGUM miðja nítjándu öld bjó sá maður á Daðastöðum
á Reykjaströnd, er Ólafur hét Gíslason. Kona hans hét Signý og var
Skúladóttir. Sjálfsagt hafa þau verið fátæk eins og flestir Reykstrend-
ingar á þeim árum.
Fimm börn áttu þau, er upp komust og ég heyrði talað um:
1. Sveinn. Hann giftist og bjó úti á Skaga að Mallandi. Kona hans
hét Þórunn Tómasdóttir. Börn áttu þau, og þekkti ég tvö þeirra:
Skúla, bónda á Mallandi og Selá, og Steinunni, konu Ásmundar
Árnasonar í Ásbúðum, og er hún enn á lífi.
2. Sigurður. Hann flutti vestur um haf.
3. Sveinbjörg, giftist ekki, en var um áratugi vinnukona hjá Skúla
Bergþórssyni, síðast bónda í Kálfárdal, og dó þar hjá ekkju hans.
4. Þorsteinn. Þegar ég man fyrst eftir, var hann vinnumaður eða
lausamaður í Kálfárdal, líklega frekar lausamaður, því ég man
eftir því, að hann fór til róðra á Suðurnes hvern vetur. Svo
vildi það til, að hann eignaðist barn með fósturdóttur þeirra
Kálfárdalshjóna, sem Sigurlaug hét Ólafsdóttir. Barn þeirra var
drengur og var skírður Sigurður.
1 Þátturinn er ritaður árið 1954 og hér prentaður eftir eiginhandarriti
höfundar í eigu Kristmundar Bjarnasonar á Sjávarborg. Neðanmálsgreinar eru
allar settar af útgefendum. (S. B., H. P.)
143