Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 184
SKAGFIRÐINGABÓK
sem vandi var, er gest bar að garði. Ég var þá farin að stálpast og
fletti ofan af handleggnum. Varð systir mín að segja sem var, að
ég væri handarvana.
Eftir að ég fór að hlaupa um, var ég alltaf frammi hjá mömmu,
er gestir komu. Mér er í minni, hve ofur viðkvæm mamma var mín
vegna. Eitt sinn kom kona frá Ábæ, sem Elísabet hét. Mamma mín
bakaði pönnukökur í tilefni af komu hennar. Ég var frammi hjá
henni að vanda. Er bakstri var lokið, fór mamma með pönnukök-
urnar fram í búr og sykraði þær. Þá gaf hún mér eina. Er heitt
var orðið á katlinum, hellti hún á könnuna, bar svo inn kaffið til
konunnar, sem sat inni í hjónahúsi og ræddi við systur mínar.
Ég elti mömmu inn og settist hjá henni. Er konan hafði drukkið
kaffi að vild, tók móðir mín pönnuköku af diskinum og skipti á
milli systranna fjögurra og Stebba bróður míns. Þá sagði Elísabet:
„Gunna litla fær nú ekkert."
Þá sagði mamma mín hljóðlega: „Ég gaf henni frammi."
Ég man enn vel, hve mömmu sárnaði, að konan skyldi halda, að
hún hefði mig útundan, en það var síður en svo, að hún gerði það.
Hún var mér einatt góð og nákvæm, enda undi ég betur hjá henni
en krökkunum, átti líka erfitt með að leika sumt eftir þeim.
Systkini mín léku sér oft í klettagili fyrir ofan bæinn. Ég var
ónýt í klettum, því að mig vantaði höndina. Einnig sá ég mjög illa
frá mér. Þá skildu þau mig eftir og létu Sveinbjörgu systur mína
vera hjá mér. Oft var henni starfi sá miður ljúfur. — Þetta varð til
þess, að ég fór ekki með systkinum mínum í klettaferðir, en var
heima hjá mömmu.
Hvammur var fyrir neðan túnið heima. Þar bjuggu eldri bræður
mínir til sundpoll. Bæjarlækurinn rann í hann. Þeir hlóðu hringgarð
og grófu svo niður, að sundpollurinn var dýpstur í miðjunni. Þarna
lærðu þeir að synda og æfðu sig oft.
Við fimm yngstu systkinin vorum oft að leik í hvamminum. Eitt
sinn í glaða sólskini vorum við að leika okkur þar. Þá klæddi Ella
systir mig úr öllum fötunum nema skyrtunni. Svo leiddu þau Elín
og Stefán mig út í pollinn, en er þau komu í dýpið, misstu þau mig,
og blotnaði þá skyrtan illilega. Þau drösluðu mér þá í land aftur
182