Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 144
MINNZT NOKKURRA REYKSTRENDINGA
eftir SIGURJÓN JÓNASSON frá Skefilsstöðum
Inngangsorð
Eftir að ég skrifaði þáttinn „f Gönguskörðum fyrir 70
árum" bárust mér allmargar áskoranir um að skrifa líka minningar
af Reykjaströnd, þar sem ég hefði átt þar heima full 40 ár. Fór ég
þá að hugsa um það, hvort ég hefði tök á því að skrifa eitthvað af
viti um Reykstrendinga fyrir og um síðustu aldamót.
Ég fann það fljótt við athugun, að ég hafði ekki svipað því nóg
í huganum, sem ég gat munað, til þess að úr því gæti orðið ritgerð,
því þó ég væri orðinn 11 ára, þegar ég kom á Reykjaströnd, þá var
það svo, að ég kynntist þar furðu fáu fólki fyrstu 8—10 árin. Olli
því einkum mín framúrskarandi hlédrægni eða feimni, sem ég þjáð-
ist af á yngri árum og raunar alla ævi. Og ég heyrði lítið talað um
það fólk, sem þarna hafði lifað og starfað, en var nú að hverfa af
sjónarsviði lífsins. Starfssvið þess hefur eflaust einkum verið sjórinn,
því þangað varð flest- að sækja í munn og maga. Landbúskapur var
víðast lítill á Reykjaströnd á þeim árum, enda þá nýafstaðin hin al-
kunnu harðindi fyrir og um 1880. Heyskapur hefur víst oft verið
þar sáralítill á þeim árum, því bæði er það, að engjar eru víða litlar
og reytingslegar og annað hitt, að í mörgum hörðum árum brást þar
grasspretta að miklu leyti. Það reyndi ég sjálfur, eftir að ég fór að
búa þar, t. d. 1918 og stundum áður. Menn vissu því, að aðallífs-
björgina varð að sækja í sjóinn, og þá held ég, að það hafi orðið
að vana að láta landbúskapinn sitja á hakanum og skeika að sköpuðu
með þessar fáu skepnur, eða þannig virtist mér hugsunarháttur fólks-
ins vera, þegar ég kom þangað 1888.
142