Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 31
ÞÁTTUR MÁLA-BJÖRNS
Vorið 1792 flytjast þau hjón að Saurbæ í Kolbeinsdal og búa þar
eitt ár. Þaðan fara þau að Skriðulandi og búa þar sjö ár. Þaðan flutt-
ust þau aldamótavorið að Neðra-Ási og bjuggu þar við vaxandi
fjármálagiftu til vors 1821. Rýmdu þau þá fyrir Gunnlaugi syni
sínum, er byrjað hafði þar búskap í tvíbýli við foreldra sína vorið
1817.
Víst er það, að aldrei hefur hagur Björns gengið eins vel fram
og þau ár, er hann bjó í Neðra-Ási. Hann kaupir jörðina, er Hóla-
stólsjarðir voru seldar 1802. Til þess tíma hafði hann að sjálfsögðu
verið leiguliði. Og svo sagði mér Jón Sigurðsson hreppsnefndarodd-
viti á Skúfsstöðum, að stuttu síðar hafi Björn einnig keypt allar
Ástungujarðir ásamt Víðinesi og greitt kaupverð þeirra allra á ein-
um og sama degi. Ástungujarðir, samkvæmt almennri málvenju,
voru Neðri-Ás, Efri-Ás, Brekkukot (nú Laufskálar) og Unastaðir.
Fór Jón hér eftir sögusögn foreldra sinna, Sigurðar Jónssonar og
Rannveigar Guðmundsdóttur, systur séra Péturs í Grímsey. En þau
bjuggu á Hofsstöðum með foreldrum Rannveigar á árunum 1844—
1849.
Við sölu Hólastólsjarða í Skagafirði, sem Stefán Stephensen ass-
essor bauð upp allar, nema Flugumýri og Viðvík, var greitt fyrir
því, að bændur keyptu sjálfir ábýlisjarðir sínar. Skilmálar voru mjög
hagstæðir. Veitmr var nokkurra ára gjaldfrestur, og fór greiðslan
fram í bankoseðlum, sem þá voru allmjög teknir að falla í verði,
borið saman við ríkisdali krónumyntar. Allt um það varð mörgum
ofviða, þeim er keyptu við uppboð jarðanna, að lúka greiðslunum.
Komu þá nokkrar jarðir í eign sumra þeirra manna, er vel voru
efnum búnir. Saga frá Skagfirðingum greinir frá því, að Björn hafi,
er uppboð stólsjarðanna fór fram, keypt Neðra-Ás og eignazt nokkr-
ar jarðir síðar. Má því ætla, að jarðir þessar (aðrar en Neðri-Ás)
hafi Björn leyst með greiðslum, er hinir upphafiegu kaupendur
þeirra lentu í þroti. Vart má ætla, að Björn hafi, er hér var komið
sögu, átt miklar fjárhæðir í „handraðanum", þótt hann geti hafa átt
nokkrar upphæðir í bankoseðlum. En hitt er engin fjarstæða, að
hann hafi fengið að láni ríflegar upphæðir í seðlum. Bankoseðlar
voru þá ekki í miklum metum. Urðu þeir fáum árum síðar nærri
29