Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 119
MERKIGIL
slætti ofan í Blönduhlíð. Þegar hún hefur verið þar tilskilinn tíma,
heldur hún heimleiðis ein síns liðs og reiðir hrífu sína. Segir ekki
af ferðum hennar fyrr en hún kemur fram að gilinu. Sést þá til
hennar frá Stigaseli og hverfur hún niður í gilið. Eftir nokkurn
tíma sést hestur hennar koma upp úr gilinu. Er hann nú mannlaus.
Þótti þá sýnt, hvað gerzt hafði. Var fljótlega hafin dauðaleit. Fannst
hrífa stúlkunnar og skýluklútur neðar í gilinu og líkið seinna rekið
úr Héraðsvötnum úti í Dalsplássi. Stúlkan hét Ingibjörg og var
Árnadóttir. Hún var 35 ára. Slysið varð 15. ágúst 1864.
Sumar sagnir telja ána hafa verið í miklum vexti af rigningu,
þegar slysið varð. Aðrar, að hún hafi ekki verið meiri en svo, að
með ólíkindum þætti að hún yrði mannsbani. Ólíklegt er, að stúlkan
hefði verið fylgdarlaus, ef ástæða hefði þótt til að óttast ána mjög.
Hins vegar hefur áin verið nógu mikil til að fleyta stúlkunni fram
í Jökulsá. Má því telja líklegt, að hún hafi verið í nokkrum vexti,
en ekki í stórflóði.
LokaorÖ
Tilgangur minn með framanskráðum línum er tvíþættur: Annars
vegar vakir það fyrir mér, að þær megi verða einhverjum til leið-
beiningar, sem skoða vildu Merkigil, en ættu þess ekki kost að hafa
kunnugan mann til leiðsagnar. Hins vegar er tilgangurinn sá, að
þáttur þessi megi bjarga frá gleymsku einhverju, sem kynni að vera
þess vert.
Erfitt er að sjá fyrir, hvað merkilegt þykir við tímabil það, sem
við lifum á, þegar stundir líða fram. Er því rétt að hafa vaðið fyrir
xieðan sig í því tilliti, svo að heldur verði það of en van, sem bjargaU
er frá gleymskunni.
Hugleiðingar mínar um jarðfræðileg efni þurfa menn ekki að
taka alvarlega. Mig skortir öll „réttindi" til að skrifa um gilið frá
þeirri hlið. En það vill svo til, að það er einmitt sú hliðin, sem næg-
ur tími ætti að vera til að endurskoða og leiðrétta, ef þess gerist
þörf.
117