Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 30
SKAGFIRBINGABÓK
leyfa honum vist ótiltekinn tíma, en vísa burt hinum nauðleytar-
manninum, er hann hafði áður veitt ádrátt um vist. Sá maður var þá
svo illa kominn, að hann dó úr megurð örskömmu síðar.
Framar vonum hefur rætzt úr hjá Birni eftir kröggur hans í Móðu-
harðindunum. Samkvæmt kirkjubók Glaumbæjarprestakalls hefur
hann átt heimili í Ytra-Vallholti 1786. Hefur Björn að líkindum
verið þar lausamaður. Svo verður ekki rakinn ferill hans næstu ár.
En um 1790 kvæntist hann ekkjunni í Hvammi í Hjaltadal. Hét
hún Helga Jónsdóttir „gapa", sem var evfirzkrar ættar.1 Ekki tel ég
líklegt, að uppnefnið gapi hafi honum verið gefið í niðrandi merk-
ingu. Hitt þykir mér sennilegra, að hann hafi verið hugrakkur og
fimur ldettagöngumaður. Þannig voru margir niðjar hans, svo að af
bar. Fór slíkt orð af Símoni bónda í Brimnesi og ýmsum frændum
hans. Verður Símonar getið síðar.
Þá er þau Björn og Helga giftust, var hún ekkja Gunnlaugs Þor-
steinssonar bónda í Hvammi. Gunnlaugur lézt 1788, eftir fárra ára
sambúð þeirra Helgu. Var hann af Stórubrekkuætt, hálfbróðursonur
séra Magnúsar Péturssonar annálaritara á Höskuldsstöðum. Einn son
áttu þau Gunnlaugur og Helga, sem Pálmi hét. Verður hans getið
síðar.
Ekki fara margar sagnir af Helgu, en þó allar á einn veg: að hún
hafi verið vel gerð mannkostakona, sem jafnan vildi bæta um fyrir
manni sínum og reynzt honum góð heilladís. Voru þau Gunnlaugur
og Helga vel efnum búin, eftir því sem þá gerðist. Saga frá Skag-
firðingum getur þess, að Björn hafi, er hér var komið, efnazt vel í
lausamennsku og svo tekið við góðu búi með konu sinni.
1 Þá er Helga giftist Birni, kvað einhver miður góðgjarn maður þessa vísu:
Nú er hún dóttir gapa gift
gömlum kroppaþjófi,
sínum fyrri sóma svipt
og sett á hné á bófi.
Heimildin að vísunni er frá Sigríði Sigurðardóttur, systur Sigurðar á Víði-
völlum. Stóð Sigríður vel að vígi um heimildir, því að hún var skagfirzk í
ættir fram. Langafi hennar var Þorfinnur Jónsson lögréttumaður á Brenni-
borg.
28