Skagfirðingabók - 01.01.1969, Blaðsíða 130
SKAGFIRÐINGABÓK
stefna til suðvesturs fram hraunin, en þau eru gróðurlaus, og stefnt
í norðurenda Lambahrauns. Það er bruna-hraunalda með ótal gjám
og skútum. Lambahraun er orðið dálítið uppgróið og er mjög leitótt.
Þarna var skipt göngum, byrjað að norðan og haldið til jökuls, en
einn sendur með hestana, því hraunið er ófært með hesta. Hesta-
maðurinn hét Einar Björnsson, roskinn og reyndur ferðagarpur.
Nú fór hver á þann stað, sem honum var sagt, og hafa víst allir
reynt að gera skyldu sína. Og þegar við hittumst uppi í Jökulkrók,
kom jaðarmaðurinn að vestan með tvö fjallalömb. Okkur þótti gott
að sjá kindur, það sýndi, að við værum ekki hér til einskis. Þarna
við vesturjaðar hraunsins fossar Vestari-Jökulsá fram undan jöklin-
um, kolmórauð og hvæsandi og frelsinu fegin, og er gaman að vera
þarna í fjallaauðninni í góðu veðri.
Einar hestamaður var kominn á sinn stað, búinn að leysa upp hey-
pokana og gefa. Við fórum nú að taka upp nestið, allir í léttu skapi.
Veðrið var indælt, sólskin og lítils háttar austangola.
Fljótlega var búizt til ferðar aftur, og nú var liðinu skipt í tvo
jafna hópa. Aðrir fóru niður að Ásbjarnarvötnum, í Hraunþúfudrög
og ofan á Klaustur. Hinir fóru út vesturhraunin, og við Eiríkur og
Jósef fórum þá leið. Við stefndum á Sátu og Mælifellshnjúk, en þau
kennileiti eru höfð fyrir mið frá Lambahrauni í Miðhlutardrög.
Nú segir ekki af ferð okkar. Hún gekk ágætlega í alla staði, en
langt þótti mér norður í fremstu grös, og mikil eru viðbrigðin að
koma af gróðurlausum hraunum niður í drögin, sem eru með mörg-
um kvíslum og lækjum, grösug og gróðursæl. Þetta grasastykki er
eins og miðhluta í gróðurlausa auðnina: hálendishraunin að framan
og berir hraungarðar bæði að austan og vestan.
Kvíslarnar renna allar í norður, en þar sem þær koma saman,
mynda þær eina allmikla á, sem beygir í vestur og heitir Miðhlutará.
Það var þar, sem svipirnir hurfu, sem lengi voru í fylgd með Ágústi
Sigfússyni í hans villu, sem Pálmi Hannesson segir frá í bókinni
„Hrakningum og heiðavegum".
Fremst í þessum drögum skiptum við okkur; hér var margt fé.
Svo hittumst við aftur við Miðhlutará, rákum yfir ána og alllangt
út eftir, svo ekki rynni til baka yfir nóttina.
128