Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 102
101
langanir. Bæði þessi „verk innan verksins“ dulbúa þemað en undirstrika
það um leið; titill Úraníu vísar beint til samkynhneigðar og sú staðreynd
að fyrsta lína viðlagsins er einnig titill skáldsögunnar undirstrikar mik-
ilvægi hennar fyrir heildartúlkun á Man eg þig löngum.50 Síðast en ekki síst
má benda á frásagnarspegil í lok bókarinnar sem er skáldverk sem Ómar
er að vinna að og Halldór óttast að fjalli um sig. Skelfingu lostinn veltir
Halldór fyrir sér hvort Ómar hafi einungis lagt sig fram um að kynnast
honum til að geta skrifað um hann bók:
Hann hefur fengið efniviðinn þar sem ég sagði honum allt í trúnaði.
Eða hvers vegna hefur þessi maður gert sér svona mikið far um að
kynnast mér? – Hvers vegna ef ekki vegna þessa, ef ekki með það
fyrir augum sem honum hefur nú tekizt – að kryfja mig til mergjar
og hafa mig á valdi sínu til að geta skrifað um mig? – – (239)
Líkt og Basil í skáldsögu Wilde, sem vill ekki að málverkið sem hann
málar af Dorian Gray komi fyrir almenningssjónir af því að hann hefur
„lagt of mikið af sjálfum sér“ í það,51 og Dorian, sem felur sama verk af
því að það geymir leyndarmál hans, þolir Halldór ekki tilhugsunina um að
leyndarmálið hans – samkynja langanir – verði afhjúpað og gefið út í bók-
arformi. Sá grunur er raunar á rökum reistur en það var þó ekki Ómar sem
gaf sögu Halldórs út heldur Elías Mar; verk Ómars sem er í vinnslu í lok
bókar er frásagnarspegill sem varpar bæði ljósi á tilurð Man eg þig löngum
50 Í Eftir örstuttan leik kemur einnig fyrir gamalt íslenskt kvæði, ástarljóðið „Eg veit
eina baugalínu“ eftir Stefán Ólafsson frá 17. öld. Jón Karl færir rök fyrir því að það
sé frásagnarspegill sem endurspegli söguþráð verksins og undirstriki sjálfstjáning-
arþörf Bubba. Sjá „Deiligaldur Elíasar“, bls. 114–15. Enn fremur er áhugavert að
titill Eftir örstuttan leik er, eins og titill Man eg þig löngum, lína úr kvæði, í þessu
tilfelli söngljóði Þorsteins Erlingssonar „Ég vitja þín æska“ sem endar svo: „Eftir
örstuttan leik var hver blómkróna bleik / og hver bikar var tæmdur í grunn“. Hjálm-
ar Sveinsson hefur bent á að hinn afdrifamikli „örstutti leikur“ í fyrstu skáldsögu
Elíasar sé ástarævintýri Bubba á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum þar sem hann
getur barn með stúlku og þannig sé titillinn hluti af heildarskilningi á verkinu, sjá
Nýr penni í nýju lýðveldi, bls. 45. Sú staðreynd að titlar fyrstu tveggja skáldsagna
Elíasar eru línur úr ljóðum undirstrikar enn fremur sjálfsmeðvitund verkanna og
sýnir hversu sterkt einkenni sú sjálfsmeðvitund er á höfundarverki Elíasar – ekki síst
í ljósi þess að titill Vögguvísu vísar einnig í ljóð, réttara sagt söngtextann „Chibaba,
Chibaba“ sem aðalpersónan Bambínó og vinir hans heyra reglulega spilaðan í
útvarpi og á dansstöðum Reykjavíkur.
51 Oscar Wilde, Myndin af Dorian Gray, þýð. Sigurður Einarsson, endurskoðuð þýð-
ing [uppr. 1949], Reykjavík: Mál og menning, 1987, bls. 8.
KYN(NGI)MÁTTUR SKÁLDSKAPARINS