Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Qupperneq 127
126
Ein konan var „algjörlega sammála“ en önnur sagði að þó sambandið hefði
truflað hana þá „samt einhvern veginn væri búið að gera allt svo fallegt“ og
nefndi enn á ný tengingu verksins við ævintýri. Sú fyrstnefnda hélt sinni
skoðun til streitu og svaraði á þessa leið: „Mér finnst þetta ekki ævintýri,
mér finnst þetta glansmynd af horror“.
Þessi mikli munur á afstöðu, að finnast sagan annars vegar minna á
ævintýri og hins vegar á hrollvekju19, fannst mér áhugaverðasta niðurstaða
rannsóknarinnar. Sumpart minna þátttakendur hópviðtalsins á lesendur
skáldsögunnar Lolitu eftir vladimir Nabokov en samkvæmt frásagnarfræð-
ingnum James Phelan skiptast lesendur þeirrar bókar í tvo hópa: þá sem
falla fyrir frásögn Humberts og þá sem gera sitt til að streitast gegn henni.
Hann telur að þeir sem streitist gegn sögunni setji siðferði – sem mætti
kannski fremur kalla ríkjandi siðferðisviðmið samfélagsins – skör hærra en
fagurfræði frásagnarinnar og leggi sig því fram um að falla ekki fyrir frá-
sögninni.20 vera má að sama sé uppi á teningnum hjá konunum í hópvið-
talinu. Konan sem líkti sögunni við hrollvekju og fannst hún „loftkennd“
og „lygi“ gat ekki lifað sig inn í söguheiminn og samsamað sig persónum
vegna þess að hún gat annars vegar ekki sætt sig við þá ákvörðun Lenna
að yfirgefa dóttur sína og halda mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir
henni og hinsvegar að Róbert skyldi byrja með fósturdóttur sinni.
Falleg ástarsaga?
Líkt og komið hefur fram þótti flestum kvennanna Frá ljósi til ljóss falleg og
ævintýraleg. En í hverju er fegurð sögunnar fólgin og hvers vegna tengja
þátttakendur rannsóknarinnar hana gjarnan við ævintýri? Ein ástæða þess
kann að vera að fagurfræðilega blekkingin (e. aesthetic illusion) hafi áhrif
á lesendur. Þegar menn lesa skáldskap láta þeir oft sem persónurnar sem
þeir lesa um séu alvörufólk – ekki bara persónur heldur mannlíki21 – og
19 Með hrollvekju er átt við sögu sem vekur andstyggð af því að hún gengur í berhögg
við viðurkennd gildi og viðmið tiltekins samfélags.
20 Sjá James Phelan, „Estranging unreliability, bonding unreliability, and the ethics
of Lolita“, Narrative 2/2007, bls. 222–238, hér bls. 223.
21 Hugtakið mannlíki er fengið frá Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur. Sjá Bergljót
Soffía Kristjánsdóttir, „„Ómstríður taktur kvikra strengja“: um Hin hálu þrep Bjarna
Bernharðs og sitthvað sem þeim tengist“, Ritið 2/2016, bls. 107–134, hér bls. 125.
Frásagnarfræðingurinn Uri Margolin var fyrstur til að benda á að menn upplifi
persónur sem fólk en hann talar þá um persónur eins og í þykjustuleikjum. Sjá
Uri Margolin, „The what, the when, and the how a being a character in literary
narrative“, Style 24/1990, bls 453–468, hér bls. 455.
GuðRún stEinÞóRsdóttiR