Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Page 17
A ð h a fa t i l f i n n i n g u f y r i r n á t t ú r u n n i í v í s i n d u m
TMM 2014 · 2 17
ekki við. Hins vegar er vandinn sá aðskilnaður mannsins frá viðfangsefninu
sem hér er lagður til grundvallar. Þetta felur í sér óæskilega fjarlægð frá þeim
gildum og verðmætum sem rannsóknin í heild felur í sér og að áherslan á
upphafningu mannsins gagnvart náttúrunni leiðir til þess að mannhverft
gildismat ræður ferðinni. Í ljósi þeirra margvíslegu siðferðilegu þátta sem
þekkingaröflun og beiting þekkingar felur í sér getur þessi einföldun gildis-
matsins verið hættuleg, og í verstu tilfellunum má lýsa þessu sem ákveðinni
afsiðun vísindastarfsemi sem rýrir gagnsemi þeirra upplýsinga sem hún aflar.
Þá er hættan m.a. sú að sannleikanum verði hagrætt í samræmi við hags-
muni mannsins á hverjum tíma.21 Svona öfgafull útgáfa af smættunarhugsun
í anda vélrænnar efnishyggju er alfarið ósamrýmanleg vinnubrögðum þeirra
vísindamanna sem ég hef áður vitnað til. Þeirra vinnubrögð eiga mun meira
skylt við ferlahugsun í anda Aristótelesar.
Allar aðferðir til að skilja veröldina hljóta að fela í sér ákveðnar einfald-
anir, við getum líklega aldrei höndlað heildarsýn á gang allra mála í nátt-
úrunni. Þar sem ná á árangri í vísindum eru hlutir einfaldaðir einungis að
því marki að þekkingin skiljist vel og hafi gildi sem vísindaleg uppgötvun.
við getum þannig séð fyrir okkur þröskuldsgildi í einfölduninni eða
smættuninni – ef farið er yfir þröskuldinn verður „uppgötvunin“ lélegri,
röng eða jafnvel heimskuleg og hættuleg. Til að geta greint þessi þröskulds-
gildi þarf vísindastarfið að einkennast af virðingu, innsæi og vandvirkni. Ég
tel nokkuð augljóst að ferlahugsun í vísindum sé mun líklegri en efnishugsun
til að ná þessu takmarki. Sjá má fyrir sér og leiða að því rök að í raunveruleik-
anum sé vísindastarfsemi oftast blanda af ferla- og efnishugsun. Ég er ekki
sannfærður um réttmæti þessarar skýringar sem virðist jafnvel sett fram til
hægðarauka. Bendi ég í því sambandi t.d. á nauðsyn þess að skoða hvort sú
einföldun á náttúrunni sem ferlahugsun í vísindum felur í sér sé sama eðlis
og sú einföldun náttúrunnar sem efnishugsun felur í sér. Höfum líka í huga
að himinn og haf virðist vera á milli siðfræði ferlahugsunar og efnishugs-
unar. En ég mun ekki fara nánar út í þessa greiningu hér.
Skyldleiki ferlahugsunar við vináttuaðferðina sem ég lýsti fyrr í þessari
hugleiðingu er greinilegur. Ferlahyggja felur í sér samtvinnun á ferlum nátt-
úrunnar og ferli vísindamannsins svo þau verða jafnvel að einu – og gildin
spretta frá þessum samruna: vináttunni. Því má halda fram að merkustu
vísindakenningar sem við þekkjum hafi einmitt orðið til með þessari
nálgun, svo sem þróunarkenningin og kenningar skammtafræðinnar.22
Andstætt nálgun ferlahugsunarinnar sundrar hrein efnishugsun gild unum
og fjarlægir manneskjuna frá rannsókninni með tilheyrandi vandræðum
sem því fylgja. Hugtök og kenningar eiga á hættu að verða lélegri og jafnvel
kreddubundnar (dogmatískar) og gagnslausar. Þetta getur haft í för með sér
mjög slæm hliðaráhrif sem í nútímasamfélaginu lýsa sér m.a. í því að mikil-
væg vísindaleg þekking drukknar í hafsjó misgagnlegra upplýsinga og þekk-
ingarbrota um náttúruna. Þetta getur leitt til þess að minna mark sé tekið