Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Side 45
S j ó n t r u f l a n i r
TMM 2014 · 2 45
„Já, ekkert mál. Hérna … hefur hún eitthvað hegðað sér undarlega undan-
farið?“
Ég snarvaknaði.
„Ja … sko. Hún varð dálítið rugluð eftir þessa laseraðgerð þarna í fyrra-
dag. Dreymdi illa og … já, hún var örlítið ringluð í gær. En hún svaf mjög vel
í nótt og var bara hress og kát í morgun. Hvers vegna spyrðu?“
„Tja … hún hefur ekki verið sjálfri sér lík í dag. Eða … hvað skal segja.
Hún hefur verið að tala við sjálfa sig. Svo þegar ég gerði góðlátlegt grín að
henni núna rétt áðan, þvertók hún fyrir það. Sagðist hafa verið að tala við
viðskiptavin. Fyrst hélt ég að hún væri að grínast en mér varð fljótlega ljóst
að henni var full alvara.“
„Hvað ertu að segja?“ tautaði ég. Mér var orðið illt í maganum.
„Já, ég veit ekki hvað gengur að stúlkunni. Ég held að það væri best að hún
tæki sér frí það sem eftir er dagsins.“
„Ég kem og sæki hana.“
„Þakka þér fyrir. Kannski er þetta bara þreyta. Það er stundum merkilegt
hvað smávægilegar aðgerðir geta haft mikil áhrif á mann.“
Ég kvaddi Jóhönnu og fletti síðan uppá númerinu hjá augnlækninum. Ég
þurfti að bíða dálítið lengi á línunni og var orðinn óþolinmóður því mig
langaði að sækja Brynju sem fyrst.
„Sjónlausnir, Guðmundur.“
„Já, góðan daginn. Sverrir Tryggvason heiti ég. Kærastan mín fór í aðgerð
hjá þér núna í fyrradag, Brynja Björk Jóhannesdóttir.“ Læknirinn hugsaði
sig um augnablik.
„Brynja, já. Einmitt.“
„Hún hefur verið dálítið ringluð eftir aðgerðina. Hefur séð einhverjar
sýnir.“
„Sýnir? Hvernig þá?“
„Ja … þetta hljómar dálítið undarlega. En hún virðist sjá fólk sem er ekki
til staðar.“
Læknirinn þagði augnablik.
„Nú átta ég mig ekki alveg á því hvað þú átt við. Sumir sjúklingar upplifa
einhverskonar sjóntruflanir rétt í byrjun, en það er yfirleitt fljótt að lagast.
Sér hún tvöfalt? Ég hef heyrt þeirrar aukaverkunar getið, en hún er mjög
óalgeng.“
„Nei, nei. Þetta eru engar sjóntruflanir … eða … mér þykir hæpið að kalla
það svo. Þetta eru sýnir. Ofskynjanir. Okkur datt helst í hug að þetta væru
einhver eftirköst af þessari róandi töflu sem hún fékk fyrir aðgerðina. Mig
langaði að spyrja þig hvaða efni voru í töflunni og hvort þú vissir um dæmi
um aukaverkanir af þessu tagi?“
„Jahá,“ sagði læknirinn og dró seiminn. „Það er ekkert annað. Ég efast um
að þetta tengist aðgerðinni nema hún hafi verið eitthvað óeðlilega kvíðin
fyrir henni. Þá gæti þetta verið spennufall. Annars er ég enginn geðlæknir.