Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Síða 122
122 TMM 2014 · 2
Guðmundur J. Guðmundsson
Að éta óvin sinn
Skáldferðaminningar frá Grikklandi
Innarlega við Egínuflóann, við sundið milli eyjarinnar Salamis og lands,
þar sem Aþeningar unnu forðum afgerandi sigur á persneska flotanum og
sneru stríðsgæfunni í Persastríðunum sér í hag, liggur Elefsis, sem er í dag
lítil iðnaðarborg. Þetta er snyrtilegur nútímabær með kubbslegum tví- og
þrílyftum íbúðarhúsum eins og gjarnan einkenna grískar borgir og bæi. Það
sem greinir Elefsis frá ýmsum öðrum sambærilegum bæjum er að þar er að
finna rústir þeirra bygginga sem hýstu launhelgarnar miklu sem helgaðar
voru korngyðjunni Demeter og dóttur hennar Kóru sem nefndist Persefóna
þann tíma ársins sem hún bjó í undirheimum hjá Hadesi eiginmanni sínum.
Elefsis var einn þeirra staða sem ég hafði einsett mér að heimsækja þegar
ég fór til Grikklands í fyrsta skipti, árið 1983. Með þessu ferðalagi var hægt
að slá tvær flugur í einu höggi því leiðin til Elefsis liggur um hlaðið á öðrum
merkisstað, klaustrinu í Dafni, en þar getur að líta einhverjar glæsilegustu
veggmyndir sem finna má á gríska menningarsvæðinu.
Eftir að hafa skoðað leiðina á korti var komið við í upplýsingamiðstöð
fyrir ferðamenn í miðborg Aþenu en eftir stutt samtal við afgreiðslumann-
inn kom í ljós að engar skipulagðar ferðir voru til þessara tveggja staða. Þess í
stað bauð hann okkur upp á kynnisferð um Akrópólis undir leiðsögn frænda
síns. „He’ll give you a very good price,“ sagði afgreiðslumaðurinn og brosti
traustvekjandi. Þar sem við höfðum þegar varið tveimur dögum í að skoða
Akrópólis og nágrenni höfðum við ekki áhuga og spurðum um strætó eða
rútuferðir til Elefsis. Náunginn í afgreiðslunni ranghvolfdi í sér augunum
og tapaði samstundis niður þeirri ensku sem hann hafði kunnað skömmu
áður og sneri sér umsvifalaust að Ameríkana sem komið hafði inn í upplýs-
ingamiðstöðina í sama vetfangi, klæddur í köflóttar bermúdabuxur og með
gríðarmikla vídeótökuvél á maganum,.
Nú var lítið að gera annað en fá sér bjór og hugsa málið. Í kránni þar sem
við drukkum bjórinn var dálítið stelpuskott að uppvarta og sagði okkur
skilmerkilega hvar við gætum tekið strætisvagn til Elefsis, þegar við fyrir
rælni spurðum hana, og gaf okkur meira að segja upp númerið á vagninum.
Eftir smá villuráf og ferðalag gegnum helsta matvælamarkað Aþeninga, þar
sem einkum virtist til sölu íslenskur saltfiskur í misjöfnu ástandi, fundum
við strætóstöðina og við okkur blasti strax vagn með númerinu sem stúlkan