Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 36
36 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
að því að smíða slíkt kerfi eins og ég hef verið að vinna að núna. Það er sérstakt
verkefni í heimspeki að gera slíkt. Langoftast er maður að vinna með einhver
ákveðin hugtök sem maður ætlar að greina nánar.
Ég vil gjarna taka sem dæmi um þetta greiningu mína á hamingjuhugtakinu.
Ég var búinn að pæla mikið í því hvað hamingja gæti verið og hvaða viðhorf
menn hefðu til hamingjunnar. Menn voru að rannsaka hvort Íslendingar væru
hamingjusamir og þá var spurningin í hvaða skilningi erum við hamingjusöm,
hvað merkir hamingja fyrir okkur? Niðurstaða mín var mjög fljótt sú að hugtak á
borð við hamingjuna væri það flókið að það væri útilokað að koma með einhverja
skilgreiningu sem væri algerlega ásættanleg. Það myndi alltaf vera töluverður
ágreiningur um það hvað hamingja væri. Við þessar aðstæður lít ég svo á að skylda
okkar heimspekinga eða verkefni sé að reyna að greina niður þá þætti sem mestu
skipta og eru hjálplegir til að veita okkur ákveðna yfirsýn: Hvaða ólíku þættir eru
það sem spila saman þegar hamingjuhugtakið er annars vegar og þegar við erum
að ræða um hamingjuna? Í þessu tilfelli leitaði ég mikið, eins og heimspekingar
vinna gjarna, að orðum, hvaða orð höfum við yfir hamingju á íslensku önnur en
bara hamingja? Uppruni orðsins hamingja er hamur, það er talað um hamskipti og
hamingjan er gjarnan talin sem fylgidís, fylgja okkar og sumir virðast fæddir undir
hamingjustjörnu. Það eru ýmis önnur hugtök eða orð sem við eigum á íslensku
sem við þurfum að hugsa, eitt orðið er gæfa. Það er lykilorð og nátengt hamingj-
unni. Svo höfum við orðið farsæld. Enn eitt orð sem við notum gjarnan til að lýsa
hamingjusömum manni er gleði. Ég get varla ímyndað mér að maður sem ekki er
glaður sé mjög hamingjusamur. Gleði er eitthvað sem fylgir hamingjunni. Síðan
er það sem líklega er mest umdeilt í hamingjufræðum almennt og það er ánægja,
ánægja er einhvers konar vellíðan, einhvers konar sæla sem hamingjusamur mað-
ur upplifir. Þannig að samkvæmt þessari einföldu greiningu á fáeinum íslenskum
orðum þá getum við dregið þá ályktun að hamingjusamur maður eða manneskja
er gæfumenni, hún er farsæl, hún er lífsglöð og hún er ánægð. Þarna er komin
ákveðin lýsing á hamingjusamri manneskju, virðist mér. Þetta er bara lýsing út frá
orðum, en nú hefst hin heimspekilega greining á hamingjunni þar sem ég beiti
fræðilegri hugsun á þessi hugtök. Við sjáum þá að þau eru ekki öll á sama sviði.
Þau leika ekki sama hlutverk ef svo má segja. Ef sagt er að hamingjan sé fólgin
í ánægju, þá er ánægjan langoftast fólgin í því að vera sæmilega auðugur, njóta
ákveðinna valda og viðurkenningar í samfélaginu, maður sem nær árangri í sínu
starfi er yfirleitt ánægður. Ánægjan er fyrir marga keppikefli í lífinu, þeir vilja vera
ánægðir og þeir leggja það að jöfnu við að vera hamingjusamur. Þetta viðhorf er
bersýnilega huglægt, ánægjan er margvísleg þannig að þetta er algerlega huglægt
viðhorf til hamingjunnar sem mjög margir hafa, sennilega meirihluti fólks. Það er
mjög auðvelt að sýna fram á hvernig þetta viðhorf stangast á við það viðhorf sem
lítur svo á að hamingja sé fólgin í farsæld, að farsælli manneskju farnist vel, allt
sem hún tekur sér fyrir hendur tekst henni vel.
Hugur 2015-5.indd 36 5/10/2016 6:45:03 AM