Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 52
52 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
Fyrirbærafræðileg frestun og afturfærsla
Hér á eftir mun ég nálgast umfjöllunina um líkamleika út frá tveimur þekkt-
ustu aðferðum fyrirbærafræðinnar, aðgerðatvenndinni epochē og reduktion, hugtök
sem á íslensku hafa verið lögð út sem fyrirbærafræðileg frestun og afturfærsla.
Þegar hinn viðtekni skilningur á þessum lykilhugtökum er skoðaður, getum við
séð í hverju sá algengi misskilningur að líkamleikann sé ekki að finna í heimspeki
Husserls er falinn. Með því að kynna þessa aðgerðatvennd get ég því dregið fram
hversu mikið grundvallarhlutverk líkamleikinn leikur í fyrirbærafræði Husserls
og hversu mikilvægur hann er fyrir skilning okkar á meðvitundinni, en ég geri það
áður en ég fjalla frekar um eðli líkamleikans.14
Í upphafi rannsókna sinna biður Husserl okkur oft að veita því athygli sem
ávallt er til staðar, þ.e. heiminum. Við erum gjörn á að líta á heiminn sem einhvers
konar hlut. Það sem einkennir vist okkar í heiminum er vissan um raunveruleika
hans, hann er það sem er til staðar.
Hin „náttúrulega afstaða“ er hugtak sem Husserl notar til þess að tjá þessa
hversdaglegu afstöðu okkar til heimsins. Hún er einfaldlega sú að sjá heiminn
sem raunverulegan, sem einhvers konar hlut eða eitthvað sem við erum í sam-
bandi við sem sjálfsverur. Þannig hugsum við að öllu jöfnu um heiminn sem
eitthvað sem nái handan okkar, að hann sé eitthvað sem hafi verið til á undan
mannlegri meðvitund og muni vera til að henni horfinni. Þannig er heimurinn
umhverfi okkar og allir þeir hlutir sem það fylla. Hann er fullur af fólki, bílum,
borðum og stólum, dýrum, fjöllum og trjám. Í honum er að finna þjóðir og lönd,
tungumál og stofnanir o.s.frv. Og náttúruleg afstaða okkar er sú að þetta sé allt
saman til, þetta sé raunveruleikinn.
Það sem Husserl biður okkur um að gera í hinni fyrirbærafræðilegu aðgerð er
að fresta dómi og reyna eftir bestu getu að líta framhjá þeim verufræðilegu skuld-
bindingum sem við lifum eftir frá degi til dags. Þessi aðgerð ber heitið epochē,
en eins og áður sagði hefur hún verið þýdd sem frestun á íslensku. Tilgangur
frestunarinnar er að gera tilraun til þess að meta hvernig heimurinn birtist okkur.
Það er í þessari aðgerð sem hið fræga boðorð fyrirbærafræðinnar um að snúa aftur
til hlutanna sjálfra á rætur sínar.
Frestuninni er lýst sem svo að með henni setjum við innan sviga ákveðna dóma
sem við fellum um upplifun okkar á heiminum. Hér er rætt um hina náttúrulegu
afstöðu. Hin náttúrulega afstaða felst fyrst og fremst í þeim allt að því óhjákvæmi-
lega dómi að heimurinn sem birtist okkur hafi hlutveruleika sem sé óháður okkur.
Það er að segja, þeirri algjöru vissu að heimurinn sem umlykur okkur sé ekki bara
einhver sýnd. Vissu sem er undirliggjandi í tengslum okkar við umheiminn.
14 Í núverandi rannsókn þá erum við að fást við það sem við myndum kalla statíska fyrirbærafræði
en þá fáumst við við reynslu okkar eins og hún birtist okkur hér og nú og reynum að grafa í
formgerðir hennar, en leiðum hjá okkur þætti sem hafa t.d. að gera með persónulegan þroska
eða hvernig við höfum sankað að okkur þekkingu. Slíkt myndi Husserl kalla genetíska fyrir-
bærafræði, en þar myndi maður t.a.m. gefa þroska barnsins og uppsöfnun þekkingar gaum. Í lok
ferilsins fékkst Husserl einnig við það sem hefur verið kallað generatív fyrirbærafræði þar sem
hann reyndi að draga saman áhrif hefðar, samfélagslegra og pólitískra þátta á fyrirbærafræðilega
reynslu. Sjá Steinbock, 1995, sem gerir frekari grein fyrir muninum á þessu þrennu.
Hugur 2015-5.indd 52 5/10/2016 6:45:08 AM