Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 14
14 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
Mér dettur í hug í þessu sambandi að William James talar um hina mystísku reynslu –
reynslu sem færir okkur heim sanninn um einhvern sannleika sem er kannski erfitt að
færa sönnur á og við getum ekki fengið eftir neinum öðrum leiðum heldur en í einhvers
konar upplifun af heiminum og lífinu. Heldurðu að reynsla af þessu tagi hafi sérstök
tengsl við heimspeki og heimspekiiðkun?
Já, ég get vel tekið undir þetta, en legg enn og aftur áherslu á að málið snýst um
afstöðu manns sjálfs, hins verðandi eða unga heimspekings, til reynslunnar. Ég
nefndi þarna tvö dæmi úr persónulegri reynslu, en það er til margs konar reynsla
sem fólk getur orðið fyrir sem gefur því ekki tilefni til neinnar heimspekilegrar
yfirvegunar
Hins vegar langar mig til að skjóta því inn að reynsluhugtakið er afskaplega
merkilegt hugtak sem felur í sér að við erum í gegnum reynsluna að kynnast
öðrum og ytri veruleika í gegnum skilningarvit okkar og upplifanir. En á hinn
bóginn er reynslan eitthvað sem við höfum eiginlega af sjálfum okkur, jafnvel
þegar við erum að kynnast eða reyna að kynnast einhverjum veruleika eða kynnast
einhverjum öðrum, þá erum við um leið að kynnast sjálfum okkur og jafnvel að sjá
sjálf okkur undir sjónarhorni annarrar manneskju.
Þú talar stundum um að líf hins hugsandi manns sé eins konar ævintýri. Skiptir þetta
máli í þessu samhengi, er það ekki afstaðan til okkar eigin lífsreynslu sem er þarna
kjarnaatriði?
Jú, ég held að það sé alveg hárrétt að sumir skynja lífið sem ævintýri, en öðrum
finnst þetta svolítið fáránleg líking, að lífið sé nú ekkert ævintýri, það geti verið
mesta basl og böl og allt tal um ævintýri í kringum lífið sé jafnvel tilraun til sjálfs-
blekkingar. Sjálfur hef ég haft mjög sterka tilfinningu frá því ég man eftir mér
fyrir því að lífið sé einhvers konar ævintýri. Þá er það sérstaklega hið óvænta sem
mér finnst við ekki veita nægjanlega eftirtekt, hvað margt skrýtið og merkilegt og
skemmtilegt og stórkostlegt er að gerast í heiminum í kringum okkur.
Þessi afstaða til reynslunnar felur þá í sér að lífið sé kynni af hinu óþekkta, að við séum
sífellt að komast í kynni við eitthvað sem er framandi, eitthvað sem við höfum ekki
fulla stjórn á, eitthvað sem við þekkjum ekki til hlítar?
Sannleikurinn er sá að við vitum afskaplega lítið í raun um þróun lífsins og jafnvel
okkar eigin lífsferil. Þannig að við lifum stöðugt í heimi hins óþekkta og við
vitum ekki gjörla hvernig við eigum að bregðast við því sem gerist í heiminum,
oft mjög skyndilega.
Þú segir á einum stað eitthvað í þá veru að kannski sé hið ósegjanlega það sem hefur
mesta merkingu og mikilvægi fyrir okkur, hvað áttu við með þessu?
Ég veit ekki alveg hvort orðið „ósegjanlega“, sem ég veit að ég hef notað, sé rétta
orðið, það mætti líka nefna hið ólýsanlega eða óskýranlega sem orð yfir það sem
ég er að vitna til. Raunar lít ég svo á að starfsvettvangur heimspekinganna sé
á jaðrinum milli þess sem við erum að reyna að hugsa og skilja og þess sem er
Hugur 2015-5.indd 14 5/10/2016 6:44:55 AM