Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 157
Um heimspeki náttúrunnar 157
þetta fjallar siðfræði náttúrunnar. Hún
leitast við að skýra boð og bönn, dygðir
og lesti, verðmæti og gildi sem eru í húfi
í hegðun manna gagnvart náttúrunni
og fyrirbærum hennar“ (72). Páll end-
ar þessa litlu hugleiðingu á að benda á
mikilvægi siðfræði náttúrunnar, að fram-
tíð lífs á jörðinni sé undir því komið að
mennirnir tileinki sér heilsteypta og sið-
ferðislega hugsun. Í þessum orðum felst
mikil ábyrgð fyrir mannkynið og skyldur
mannanna liggja ljósar fyrir.
Páll veltir fyrir sér gildi náttúru á
nokkrum stöðum í bókinni en það er
eitt af höfuðviðfangsefnum náttúrusið-
fræðinnar. Hann veltir fyrir sér í erindi
frá árinu 1995, „Að búa á landi“, hvort
land eða staðir, fjöll og melar, holt og
hólar hafi siðferðisgildi, þ.e. hvort hægt
sé að gera illt gagnvart „dauðri“ nátt-
úru og hugsanlega gera henni rangt til.
„Merking hinnar dauðu náttúru og gildi
felst einmitt í þessu: að vera grunnur og
umgjörð hinnar lifandi náttúru – bera
uppi lífið, umvefja það – og taka svo við
leifum þess þegar það lygnir augunum
í hinsta sinn“ (76). Mönnum ber því
siðferðileg skylda til dauðrar náttúru af
þessum sökum, þeir eru af jörðu komnir
og háðir henni. Þess vegna finnst Páli
mikil mistök vera falin í því viðhorfi að
líta á náttúruna sem eign manna og að
leyfilegt sé að gera hvað sem er undir því
yfirskini. Við eigum ekki landið í þeim
skilningi og getum hreinlega ekki gert
það sem okkur lystir. Hann lítur svo á
að við séum með landið að láni frá for-
feðrum okkar og að okkur beri að skila
því í góðu ásigkomulagi fyrir komandi
kynslóðir. Heiti erindisins er lýsandi
fyrir það viðhorf að mennirnir eigi ekki
landið, heldur séu þeir íbúar þess: „Sið-
ferðislögin gildi ekki bara í samskiptum
milli manna eða í tengslum þeirra við dýr
eða aðrar lífverur, þau gildi ekki síður í
samskiptum þeirra við landið og jörðina
alla, fossana og fjöllin, melana og móana“
(77).
Bókin er stutt og mjög þægileg í
lestri. Hún útskýrir á mannamáli þessi
flóknu mál og það ættu allir sem áhuga
hafa á umhverfismálum og umræðu í
kringum þau að hafa gagn og gaman af
þessari bók. Hún hentar því ekki bara
fræðilega heiminum, heldur er hún að
mínu mati mjög aðgengileg vegna þess
hvernig Páll setur hana fram. Erindin
og hugleiðingarnar eru flestar stuttar og
hæglega er hægt að grípa niður í bókinni
nánast hvar sem er.
Erindin eru mislöng og þrátt fyrir að
bókin sé samansafn ritverka sem spanna
yfir tuttugu ár, sem skrifuð eru af mis-
munandi tilefnum og sett fram á ólíkan
máta, þá myndar hún samt eina heild.
Páll Skúlason er mikilvægur höfundur
þegar kemur að umhverfis- og nátt-
úrusiðfræði. Skrif hans skipta miklu máli
fyrir alla þá sem nema þessi fræði og þá
sem leggja áherslu á þessi málefni. Og
flestir sem fjallað hafa um siðfræði nátt-
úrunnar eru sammála um að við þurfum
að endurskoða margar hugmyndir og
kenningar sem í dag ráða mestu um af-
stöðu okkar til umhverfis og náttúru. Von
mín er sú að ýmsar hugmyndir sem reif-
aðar eru í þessu riti megi stuðla að slíkri
endurskoðun.
Bára Huld Beck
1. Hermann Stefánsson. „Landsins gagn og
nauðsynjar“. Morgunblaðið, 24. janúar 1999.
Hugur 2015-5.indd 157 5/10/2016 6:45:43 AM