Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 86
86 Mikael M. Karlsson
ingargáfa, að við þekkjum líkamlega hluti og eiginleika þeirra fyrir tilstilli hennar
og að þetta séu einu hlutirnir sem unnt sé að þekkja eða hugsa sér – sá maður
er í „viðjum fordómanna“. Vitaskuld er slíkur maður óafvitandi um að hann sé í
viðjum fordóma; að hans áliti trúir hann einmitt því sem er bersýnilega augljóst.
Hann grunar ekki að hann sé svo rammlega bundinn mistökum sem honum urðu
á í bernsku að hann gæti ekki einu sinni skilið (því hann myndi óhjákvæmilega
misskilja) hinn raunverulega sannleika um hlutina ef honum væri lýst eða hann
útskýrður með venjulegum hætti. Til að sjá af hverju svo er, verðum við að líta
á hvernig fordómar hafa áhrif á skynsemina; því að það er fyrir tilstyrk þeirrar
sálargáfu – og aðeins hennar – að maður getur, samkvæmt Descartes, komist að
sannleikanum.
Þegar maður vex upp frá bernsku til fullorðinsára þroskast einnig skynsem-
in og getur gert vart við sig með þeim hætti sem frumskynsemi bernskuáranna
gat ekki. En ef skynsemin þroskast innan þeirra takmarka sem sá öflugi vani
sem veldur fordómunum setur henni, er hún að því marki skert: Descartes notar
orðin „spillt“, „óhrein“ og „ófullkomin“. Slík skert skynsemi er skynsemi ofurseld
„skynjuninni“ – þ.e. aðeins notuð þegar henni er beitt á hugmyndir um líkamlega
hluti sem „skynjunin“, minnið eða (oftast nær) ímyndunaraflið lætur í té – og
getur því ekki þroskað til fulls sinn eigin sérstaka hæfileika til að láta huganum í
té hrein skilningsatriði.
Sá maður, sem er fangi fordómanna og hefur slitið barnsskónum, á að geta
áttað sig á því að nokkrar hugmynda hans eru eitthvað sem skynsemin, frekar en
„skynjunin“, minnið eða ímyndunaraflið, lætur í té og gerir það jafnvel stundum.
Hann kemst að því að með því að beita skynseminni af ásettu ráði virðist honum
hann geta séð að hugmyndina um einn hlut eða eiginleika megi í sumum tilvikum
ráða af hugmyndinni um annan. Í slíku tilfelli kemst hann að þeirri niðurstöðu –
eða „afleiðslu“ [demonstratio]8 – (sem er einnig hugmynd) að fyrri hluturinn eða
eiginleikinn sé hluti eða þáttur af hinum síðari. Þótt afleiðsla af þessu tagi virðist
fanga fordómanna ekki eins tær og hrein og hugmyndir sem „skynjunin“ lætur í
té, virðast honum hún nægilega tær og hrein til að hann hallist að því að fallast á
hana; þannig viðurkennir hann að skynsemin láti í té þekkingu, að minnsta kosti í
sumum tilvikum. En þótt svo sé gerir hann ekki ráð fyrir því að það sé skynsemin
sem uppgötvi að eitthvað sé til handan hugsana hans; hann lítur svo á að skyn-
semin fáist við slíka hluti aðeins ef henni er beitt á það sem hann hefur komist að
með sjálfstæðum hætti að sé til utan hugans, þ.e. fyrir tilstyrk „skynjunarinnar“,
að því er hann telur.
Við skulum gefa gaum að því að hjá fanga fordómanna lúta hugmyndirnar, sem
afleiðsluályktanir spretta upp úr og þar með ályktanirnar sjálfar, að líkamlegum
hlutum eða eiginleikum þeirra – því reyni fangi fordómanna að hugsa sér eitthvað,
þvingar vaninn hann til að setja sér fyrir sjónir hugmynd um eitthvað líkamlegt.
Á sama hátt er það ekki með óheftri innsýn skynseminnar hjá fanga fordómanna
8 Descartes virðist alloft nota orðið „demonstratio“ – hér þýtt sem „afleiðsla“ – í merkingunni
„demonstrandum“ eða „theorema“, þ.e.a.s. afleiðsluniðurstaða; sbr. „afleiðsluályktun“ sem merkir
annars vegar ferlið að álykta (með afleiðsluhætti) og hins vegar niðurstöðuna sem ályktað er að.
Hugur 2015-5.indd 86 5/10/2016 6:45:17 AM