Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 24
24 Jón Ásgeir Kalmansson ræðir við Pál Skúlason
erum ekki hreinar skynsemisverur, við erum annað og meira en bara skynsemis-
verur. Ég hef haft tilhneigingu til að skilgreina skynsemina í anda Aristótelesar
sem ákveðna sálargáfu, sem hæfileikann til að sjá það sem er satt og gera það sem
er rétt, sjá hið sanna og rétta. Ég hef þannig alltaf haft tilhneigingu til að tengja
skynsemishugtakið við tvö önnur hugtök sem eru sannleikur og réttlæti. Þarna
skín platonisminn í gegn eina ferðina enn, þannig að við getum ekki áttað okkur
á skynseminni nema við áttum okkur á réttlætinu og við getum ekki áttað okkur á
réttlætinu nema við áttum okkur á sannleikanum, þannig að það eru einhver rök-
leg tengsl milli þessara þriggja meginhugtaka, skynsemi, sannleikur og réttlæti.
Því má skjóta hér að hvað íslenskuna varðar að orðið skynsemi á íslensku getur
líka átt við dýr. Við tölum um að dýrin geti verið misjafnlega skynsöm þannig
að það að takmarka þennan hæfileika við hið sanna og rétta, gengur ekki alveg
upp á íslensku þegar við erum að tala um skynsemina. Tengingin við réttlæti og
sannleika er ekki eins sterk og þegar talað er um reason eða rationality á enskunni.
Síðan eru þessi tengsl milli greindar og skynsemi. Þetta tengist aftur dýrunum.
Dýrin eru misgreind að okkar dómi, og þar af leiðandi misjafnlega skynsöm. Þau
greina aðstæður bersýnilega, en með öðrum hætti en við gerum. Hin klassíska
greining skynseminnar sem hæfileika til að sjá það sem er rétt og til að fella dóma
um það sem er satt eða ósatt, er gjarnan sett í samhengi við tvær aðrar sálargáfur
okkar sem reyndar koma einnig fyrir hjá dýrunum, sem er skap og langanir. Sem
dýr höfum við skap sem tengist þá gjarnan vilja og ákvörðun, ásetningi. Dýrin
hafa oft ásetning í svipuðum skilningi og við mennirnir, þau ætla sér eitthvað,
þau hafa einhvern tilgang með lífi sínu. Síðan eru þessar langanir sem eru þá
þrár eftir einhvers konar fullnægingu, það er einhver skortur, allar lífverur skortir
eitthvað og löngunin er það sem á að leiðbeina okkur um það sem okkur vantar,
um þarfir okkar. Þessu er oft slegið saman við tilfinningar. Ég á við að stundum
tala menn um skynsemi, skap og tilfinningar, en ekki skynsemi, skap og langanir.
Tilfinningarnar eru þá mælikvarðinn á það hvort löngunum okkar sé fullnægt
eða ekki, líkt og þegar manneskja er ástfangin og hefur ákveðnar þrár og það eru
tilfinningarnar og langanirnar sem renna saman í eitt, til dæmis í ástarþrá eða í
þessum skorti. Klassíska kenningin um skynsemina frá Platoni og Aristótelesi er
sú að það sé skynsemin sem eigi að ráða. Réttlæti ríkir í sálinni, segir Platon, þegar
„harmoní“ eða samræmi er á milli þessara þriggja sálarafla, þannig að skynsemin
drottnar yfir skapinu, við látum skapið ekki hlaupa með okkur í gönur og skapið
er um leið kjarkurinn, hugrekkið til að standa á móti þeirri tilhneigingu að hlaupa
eftir hverri löngun og reyna að fullnægja henni eins og kostur er, eða að dansa
eftir duttlungum eigin tilfinninga.
Mig langar þá að biðja þig að einbeita þér í framhaldinu að skynseminni sem hæfileik-
anum til að sjá eða greina sannleikann. Í heimspeki þinni og hugsun eru tvær áherslur
sem virðast oft fara saman, það er annars vegar áherslan á hugtökin og kerfið, að við
erum að reyna að skilja veruleikann með hugtökum okkar og við erum að reyna að
finna einhvers konar samkvæmni í hugsun okkar og hugmyndum um veruleikann. Á
hinn bóginn er þessi áhersla á dýptina ef svo má að orði komast, þ.e.a.s. hæfileika okkar
Hugur 2015-5.indd 24 5/10/2016 6:45:00 AM