Andvari - 01.03.1968, Blaðsíða 38
36
JÓN GÍSLASON
ANDVARI
ist Kristinn. Var þá snúið við til Aþenu. Ráðlögðu læknar honum þar ein-
dregið að fara þegar í stað til Lundúna til uppskurðar. Fór hann að ráðum
iæknanna í Aþenu, enda var Árni, sonur hans, starfandi læknir við sjúkra-
hús í Lundúnum. Skurðaðgerðin sjálf tókst vel. En fáeinum dögum eftir
að hún hafði verið framkvæmd, andaðist Kristinn síðdegis 12. júní 1966,
af hjartabilun. Lauk þar langri og farsælli ævi, sem að langmestu leyti hafði
helguð verið hinu göíuga hlutverki að koma æskulýð þessa lands til rnenn-
ingar og manndómsþroska.
A námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynntist Kristinn ungri prests-
dóttur, Þóru Arnadóttur, prófasts Jónssonar á Skútustöðum, og seinni
konu hans, Auðar Gísladóttur. Felldu þau hugi saman og hétu hvort
öðru eiginorði árið 1919. En hæði voru við nám og þótti því eigi koma til
greina að stofna heimili, fyrr en að námi loknu. Var þá öldin önnur en nú í
þessum efnum. Fjórum árum síðar gengu þau í hjónaband á afmælisdegi
Kristins, 28. sept. 1923. Árið 1929 fluttu ungu hjónin í steinhús, sem þau
höfðu byggja látið að Sólvallagötu 29. Áttu þau jafnan heima þar síðan.
Þeim hjónurn varð fjögurra barna auðið. Þau eru: Þorbjörg mennta-
skólakennari, Ármann sakadómari, Árni læknir og Auður Katrín.
Heimilið að Sólvallagötu 29 var gætt sérstökum þokka. Hver, sem þar
var gestkomandi, hlaut að verða var hins þægilega andrúmslofts, sem þar
ríkti. A4un því eigi ofmælt, að hið friðsæla og aðlaðandi heimili hafi átt
drýgstan þátt í að viðhalda starfsþreki Kristins. Innan véhanda þessa lrið-
helga griðastaðar endurnýjaðist hann á líkama og sál eftir langan og erfiðan
vinnudag, svo að hann gat aftur heilsað hverjum nýjum degi glaður og
reifur.
Nú er Kristinn Ármannsson setztur „ódáins við öl á bekk“ með hinni
prúðu sveit þeirra ágætismanna, sem á öllum öldum sögu vorrar, allt frá
fyrstu dögum Guðs kristni i landinu, hafa vígt æskulýð vorn til þjónustu
í helgidómi menntagyðjanna. Þann sess mun hann skipa með sórna.