Andvari - 01.03.1968, Blaðsíða 119
ANDVARI
GRÍMUIl THOMSEN OG ARNLJÓTUR ÓLAFSSON
117
Hefur hann á mörkum marga
munntama þeim gefið bráð.
Sjálfs hans ævi er álík varga,
einn sér verður hann að hjarga,
hefur safnað ei né sáð.
Með ráni og vígum raunahnútinn
reið hann sér og auðnutjón.
Á holtum og á heiðum úti
hýsa hann eikarstofn og skúti.
Hvergi er honum fritt um frón.
Ymsar sögur annarlegar
Arnljóts fara lífs um skeið.
En fátækum hann þyrmir þegar
og þeim, sem fara villir vegar,
vísar hann á rétta leið.
Svo oft sem ég hafði haft kvæði þetta yfir í huganum, þegar ég var einn á
ferð, fann ég lengi ekkert, er tengdi það við líf Gríms eða við samtíð hans, það
var mér aðeins skáldsýn gáfaðs manns, tengd og vaxin upp úr gamalli sögu.
En á kyrru kvöldi barst mér allt í einu óvænt hugboð: Kvæðið er um Amljót
Ólafsson prest á Bægisá.
Ég segi ekki frá því sem fullvissu, heldur aðeins hugboði, að þar sé að leita
kveiks kvæðisins sem séra Arnljótur er. En því oftar sem hugur minn hefur að
því leiðzt, því fleiru hefur upp skotið, sem styður það. Arnljótur hafði flest það
til að bera, er gerði hann að hetju síns tíma, hann var einhver glæsilegasti gáfu-
maður, er þjóð okkar átti á öldinni sem leið. Þeir Grímur áttu mörg ár saman í
Kaupmannahöfn. Þar var Arnljótur lengi við nám og hagskýrslugerð, öðrum
þræði í þjónustu Jóns Sigurðssonar, því að Bókmenntafélagið, sem Jón stýrði,
gaf hagskýrslurnar út. Ég hef oft heyrt lítið gert úr íslenzkum hagskýrslum, en
það er ranglátt. Sumt af þeim liefur að vísu verið ófullkomið, en sumt er full-
komlega sambærilegt við hið bezta með öðrum þjóðum, einkum að því leyti,
hvernig grein er gerð fyrir tölum. Llm hagskýrslur þær, er Arnljótur gerði, er
tvímælalaust það að segja, að þær eru með snilldarbragði. Auk þess að vera venju-
legar hagskýrslur eru þær jafnframt bókmenntir og sagnfræði á háu stigi. Þegar
heim til íslands kom, virtist sem gæfan brosti við Arnljóti. Hann eignaðist konu,
sem var ágætlega mennt, um margt mikilhæf og nærri undursamlega einlæg í
ást sinni til hans, svo sem hréf hennar til Halldóru systur hennar og Tryggva